Alþýðusambandið er ekki klofið en staðan er viðkvæm
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. okt 2022 16:18 • Uppfært 13. okt 2022 16:18
Framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags segir Alþýðusamband Íslands laskað eftir átök á þingi sambandsins í byrjun vikunnar en ekki varanlega klofið. Mikilvægt sé að mynda samstöðu því þannig nái hreyfing launafólks helst árangri.
„Þetta er ekkert einsdæmi í sögu Alþýðusambandsins þó reyndar þurfi að fara býsna langt aftur í tímann til að finna álíka ágreining. Við skoðun kom í ljós að málefnalegur ágreiningur er ekki mikill heldur mjög harðar deilur milli einhverra fylkinga, sem kannski fæstir þingfulltrúar hafa fylgst með. Því kom þetta stórum hluta þingfulltrúa algerlega í opna skjöldu,“ segir framkvæmdastjórinn, Sverrir Mar Albertsson, um þingið.
AFL átti 17 fulltrúa á þinginu sem verið hefur mikið í fréttum eftir að þrír frambjóðendur til forsetaembætta þess drógu framboð sín til baka og yfirgáfu svo þingið.
„Innan ASÍ hafa yfirleitt alltaf verið einhverjar blokkir og einhver andstaða og það er bara eðlilegt í félagslegu starfi. Við fórum á þingið núna og bjuggumst við að forseti og varaforseta yrðu kosin með nokkuð öruggum meirihluta. Önnur framboð með raunhæfa möguleika höfðu í raun ekki komið fram. Því kom það algerlega flatt upp á fólk þegar Ragnar Þór Ingólfsson (VR), Vilhjálmur Birgisson (Verkalýðsfélagi Akraness) og Sólveg Anna Jónsdóttir (Eflingu) drógu framboð sín til baka.“
Í hönd fór nokkur reikistefna um hvernig þingið yrði klárað. Að lokum varð niðurstaðan að fresta því til næsta vors. Sverrir Mar flutti þá tillögu á þinginu.
„Við vorum mörg sem töldum að réttast væri að fresta þinginu í ljósi stöðunnar sem upp kom við að þingfulltrúar þriggja eða fjögurra félaga gengu á dyr. Ef þingið hefði haldið áfram og við kosið nýja forystu og forseta er ljóst að tvö stærstu aðildarfélög ASÍ hefðu enga aðkomu haft að því kjöri og því umboð þess forseta ekki sterkt.“
Ekki trú á að félögin gangi úr ASÍ
Hann segir mest um vert að huga að framtíðarhagsmunum ASÍ og þar með launþega í landinu. Hann vonast til að lending nái þannig ekki verði varanlegur klofningur en segir óheppilegt að svona hafi gerst skömmu fyrir kjarasamninga.
„Fyrir mig og ég held flesta fulltrúa AFLs þá skiptir ekki máli hvort við erum eða vorum í stuðningsliði einhvers tiltekins frambjóðenda. Eftir að úrslit liggja fyrir erum við alltaf í liði Alþýðusambandsins og forseta þess. Þannig hefur hreyfingin unnið sína stærstu sigra, með því að taka deiluna á þingum sínum og útkljá á lýðræðislegan hátt og fylkja sér svo að baki niðurstöðunni hvort heldur menn studdu hana eða ekki.
Auðvitað er Alþýðusambandið laskað eftir atburði síðustu daga en ég held að það sé ekki orðinn neinn varanlegur skaði enn. Því miður förum við inn í kjarasamninga án þess að útkljá þessi mál og kannski dálítið sitt í hvoru lagi en þegar samningum er lokið þarf fólk að setjast saman og reyna að hreinsa loftið og finna flöt á framtíðina.
Ég hef ekki trú á því að þessi félög segi sig frá Alþýðusambandinu. Ég alla vega ber þá von í brjósti að fólk taki ekki slíkar ákvarðanir nema að vel athuguðu máli og sagan og reynslan ætti að sýna að sameinuð höfum við unnið stærstu sigrana. Sundruð erum við veik.
En ef af því verður að einhver félög ganga út, þá er það í sjálfu sér enginn heimsendir. Alþýðusambandið mun starfa áfram en mögulega í eitthvað minni útgáfu og það verður svo hlutverk næstu leiðtoga hreyfingarinnar að sameinast aftur í eina fylkingu.“