Álverið er risi í austfirsku samfélagi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. sep 2022 11:42 • Uppfært 02. sep 2022 11:43
Einar Þorsteinsson taldi sig hættan afskiptum af stórfyrirtækjum þegar honum bauðst starf forstjóra Alcoa Fjarðaáls fyrir um ári. Hann hafnaði því í fyrstu en snerist síðan hugur. Einar segir sterka stöðu fyrirtækisins í austfirsku samfélagi vera styrk sem Alcoa þurfi að rækta.
„Það þekkja mig allir úti í búð en ég er enn að læra andlit og nöfn. Ég hitti varla nokkurn sem ekki er einhvern vegin sterklega tengdur fyrirtækinu.
Að við séum svona stór í samfélaginu hefur mikil áhrif á stóran hluta íbúanna og það mótar að einhverju leyti starfið. Það getur verið hamlandi, erfiðra að bregðast við með harðari aðgerðum þegar illa gengur en líka styrkur þegar á móti blæs því ef vel tekst til í stjórnun og mannahaldi þá er fólkið tilbúið að standa með okkur.
Við getum talað um að við berum ábyrgð, frekar en skyldur gagnvart samfélaginu og séum að uppfylla samfélagslegt starfsleyfi okkar,“ segir Einar í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans, en því var fagnað um síðustu helgi að 15 ár eru liðin síðan álverið á Reyðarfirði var gangsett.
Lífið er röð af tækifærum og tilviljunum
Einar er uppalinn Reykvíkingur og var lengi forstjóri Elkem á Íslandi, auk þess að vinna að alþjóðlegum verkefnum fyrir fyrirtækið. Hann var samt ekki að horfa í kringum sig eftir nýju stjórnunarstarfi þegar færið gafst á að koma austur.
„Lífið er röð af tækifærum og tilviljunum sem þú sem einstaklingur þarft að velja og hafna. Stundum verðurðu að þora að stíga skrefið og taka ákvörðunina. Hún er rétt á þeim tímapunkti sem þú tekur hana.“
Einar fékk krabbamein fyrir þremur árum og varð það til þess að hann tók aðra stefnu í vinunni þegar hann hafði losnað við meinið. „Ég fór í Leiðsöguskólann og var farinn að leiðseigja síðasta sumar þegar maður hringir í mig og spyr hvort ég hafi áhuga á þessari stöðu hér eystra. Fyrst sagði ég nei, hafði engan áhuga. Svo hringdi hann aftur og þá kviknaði á mér.“
Hann segir nýjar áskoranir og fólk hafa heillað sig. „Það er alltaf þetta sama. Leiðsögnin er skemmtileg því ég hitti alltaf nýtt fólk. Þarna kem ég inn í nýja verksmiðju og fer á kaf með fólkinu að taka á þeim verkefnum sem fyrir hendi eru. Í gegnum ævina hef ég yfirleitt ekki farið inn í fyrirtæki þar sem allt er í toppstandi heldur fengið tækifæri til að breyta um kúrs og að takast á við erfiða rekstrarstöðu hér heillaði mig. Það er frekar að mér fari að leiðast þegar farið er að ganga betur.“
Bjartsýnn á að húsnæðismálin séu að lagast
Áskoranirnar eystra hafa annars vegar falist í að ná upp fullum afköstum álversins. Hún datt meðal annars niður vegna þess að ný ker entust skemur en búist var við. „Á síðustu tveim árum höfum við endurnýjað yfir 50% af öllum kerum verksmiðjunnar sem er nánast óheyrt í starfandi álveri. Í lok þessa árs verðum við með nánast öll ker í rekstri og þá get ég sagt að farið sé að ganga vel og við komin á beinu brautina. Þetta er búinn að vera mjög erfiður tími og starfsfólkið hefur lagt á sig gríðarlega vinnu við að koma þessu á rétta braut.“
Að auki má nefna skort á iðnaðarfólki, eins og mörg önnur iðnfyrirtæki hérlendis og starfsfólki almennt sem aftur helst í hendur við skort á húsnæði á Austurlandi en fjórðungur þess starfsfólks sem Alcoa hefur ráðið inn síðustu misseri býr utan Austurlands.
„Þegar við finnum starfsfólk sem vill koma er spurt hvort við getum aðstoðað með húsnæði. Þá verður oft minna um svör. Það er ekki óeðlilegt að hluti starfsfólks búi annars staðar, sumir velja fyrst að prófa, en hlutfallið er alltof hátt. Þú byggir ekki samfélagið upp með fólki sem vinnur sína fimm daga vaktalotu og fer síðan heim í aðra landshluta í frí,“ segir Einar.
Hann vonast þó að þetta standi til bóta. „Hrunið hafði örugglega áhrif á uppbyggingu húsnæðis. Síðan hefur atvinnulífið hér eystra vaxið en ekki náð að draga að sér nóg af fólki. Ég var svartsýnn í vor en er nú orðinn mun bjartsýnni. Fasteignaverð er komið á þann stað að ekki er lengur galið að byggja hús og það er byrjað að byggja víða. Ég held við verðum komin út úr þessari krísu að mestu eftir 2-3 ár.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.