Annað metsumar í komum skemmtiferðaskipa framundan
Alls komu 72 skemmtiferðaskip til Seyðisfjarðar á liðnu sumri og hafa aldrei verið fleiri. Það met mun ekki standa lengi því nú þegar hafa yfir eitt hundrað slík fley skráð komur til bæjarins næsta sumar.
Ekki er útilokað að fjölgunin verði meiri áður en yfir lýkur en nú þegar er um 40 prósent fjölgun þeirra að ræða á Seyðisfirði einum saman. Búist er við aukningu heimsókna slíkra skipa á Djúpavog og Borgarfjörð eystra sömuleiðis en í sumar komu alls 111 skemmtiferðaskip í þessar þrjár hafnir Múlaþings.
Aðspurður um hvort fara þurfi að huga að því að takmarka slíkar skipakomur með tilliti til stóraukins fjölda þeirra segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, að á döfinni sé hjá sveitarfélaginu að greina hvort þess þurfi og þá hvenær. Ekki sé þó líklegt að grípa þurfi til takmarkana næsta sumar.
Slíkar takmarkanir á komum skemmtiferðaskipa eru velþekktar víða erlendis frá. Koma þar bæði til áhyggjur af mengun en slík skip menga gríðarlega þó í höfn séu en ekki síður þykir það ljóður á upplifun ferðafólks ef mörg slík skip koma á sama tíma. Í tilfellum eru viðkomustaðirnir einnig of litlir til að innviðir og þjónustuaðilar ráði vel við fjöldann.
Frá Seyðisfirði á góðviðrisdegi í sumar sem leið. Eitt skemmtiferðaskip á útleið í fjarska og eitt lónar fyrir utan bæinn og bíður farþega sinna í léttabátnum sem sést til hægri á myndinni. Allnokkrum sinnum í sumar voru tvö eða fleiri slík skip í firðinum. Mynd AE