Appelsínugul viðvörun fyrir Austurland og Austfirði á morgun
Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir Austurland að Glettingi og Austfirði vegna lægðar sem gengur yfir landið á morgun. Landsnet varar við rafmagnstruflunum og spárnar hafa áhrif á viðburðahald.
Gul viðvörun er í gildi frá því klukkan sjö í kvöld til tíu í fyrramálið fyrir Austurland en ekki Austfirði. Á þeim tíma er spáð suðvestan 15-23 m/s og vindhviðum víða yfir 30 m/s.
Það getur verið varasamt ökutækjum sem taka á sig mikinn vind auk þess sem fólk er hvatt til að ganga frá lausamunum á borð við garðhúsgögn og trampólín.
Klukkan tíu í fyrramálið gengur appelsínugula viðvörunin í gildi fyrir bæði spásvæði. Á Austurlandi gildir hún til klukkan þrjú aðfaranótt mánudags og er þá búist við norðvestan 20-25 m/s með slyddu eða snjókomu og eru líkur á versnandi færð á fjallvegum.
Fyrir Austfirði gildir viðvörunin til miðnættis en þar segir hreint út að ekkert ferðaveður verði. Búist er við norðvestan 23-28 m/s en hvassara á stöku stað með vindhviðum yfir 40 m/s.
Í tilkynningu frá veðurstofunni Bliku segir að spáin á morgun sé með þeim ljótari sem sést hafi á þessum árstíma. Kalt loft nái að steypa sér yfir svæðið fram af brúnum Vatnajökuls. Viðbrigðin verða snörp því tæplega 20 stiga hiti mældist á Eskifirði í hádeginu og reiknað er með hlýju veðri áfram um allan fjórðunginn í dag, þótt nokkur vindur fylgi.
Landsnet varar við að vindálag og hnútar þvert á raflínur geti valdið truflunum um gervalla Austfirði frá því klukkan níu í fyrramálið.
Veðurspárnar hafa áhrif á viðburðahald. Hátíðinni Kuldabola á Reyðarfirði var frestað sem og Cittaslow-sunnudegi á Djúpavogi. Dansleik með Herra Hnetusmjöri á Egilsstöðum í kvöld er aflýst.
Enn er þó stefnt á Klettasöng ofan við Tehúsið í kvöld, hann verður færður inn ef ekki viðrar. Fellamenn fengu heldur ekki nóg af gleðinni í kvöld heldur bjóða í singalong í hlöðunni í Sólbrekku í Fellum klukkan 21 í kvöld . Tilefni af bættum samgöngum en búið er að klæða síðasta kaflann á veginum í Fellum.
Á mánudag er áfram spáð hvassviðri, 13-20 m/s, þótt engar viðvaranir hafi verið gefnar út enn.