Áttu fallega minningarstund við Æðarsteinsvita
„Þetta var vel sótt og við áttum þarna góða stund saman til að minnast þeirra sem létu lífið í þessu hræðilega sjóslysi á sínum tíma,“ segir Alfreð Örn Finnsson, sóknarprestur á Djúpavogi.
Allt að 30 manns komu saman við Æðarsteinsvita í gær til þess að minnast þess að 150 ár eru liðin frá mannskæðasta sjóslysi sem vitað er um í Djúpavogi þegar tíu manns fórust með bát þar skammt frá í blíðskaparveðri. Sömuleiðis var þess minnst að vitinn sjálfur var reistur fyrir sléttum hundrað árum síðan. Af þessu tilefni var komið fyrir minningarskildi á vitahúsið og afhjúpaður sérstakur skúlptúr.
Það eru þeir Kristján Ingimarsson og Reynir Arnórsson sem hafa haft veg og vanda af verkefninu og notið aðstoðar fjölda einstaklinga og fyrirtækja í bænum. Hugmyndin að heiðra minningu þeirra sem létust, viðhalda menningararfi svæðisins og minna á mikilvægi öryggismála fyrir sjófarendur.
Alfreð segir að vitinn sjálfur sé fallegur sem og staðsetningin og með bættu aðgengi að staðnum megi vel gera Æðarsteinsvita að eftirsóknarverðum ferðamannastað.
Skúlptúrinn í forgrunni og fallegt vitahúsið. Þrátt fyrir heldur hráslagalegt veður mættu um 30 manns á minningarathöfnina í gær. Mynd Maciej Pietrunko