ÁTVR enn að íhuga hvað gera skuli með gömlu Vínbúðina á Egilsstöðum
„Málið er í vinnslu en vonandi verður ekki langt að bíða eftir næstu skrefum, það er að segja hvort húsnæðið fer í söluferli eða verður leigt,“ segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR.
Tæplega fimm mánuðum eftir að Vínbúðin á Egilsstöðum flutti sig um set úr svokallaðri Kleinu að Miðvangi 13, og tæpu ári eftir að sá flutningur var staðfestur, stendur gamla verslunarhúsnæðið enn autt á góðum stað í miðbæ bæjarins.
Stöku bæjarbúar hafa haft á orði hve undarlegt það sé hversu lengi það taki að koma eigninni í sölu eða leigu enda almennt verið skortur á hentugu verslunarhúsnæði miðsvæðis á Egilsstöðum þó fasteignamarkaðurinn í landinu hafi kólnað allra síðustu vikurnar.
Sigrún segir málið þó ekki ofan í skúffu og ákvörðun verði tekin innan tíðar.