Austfirðingur tekur við rekstri bensínstöðvarinnar í Fellabæ
„Miðað við mína útreikninga er vel mögulegt að reka stöðina áfram og hafa af því ávinning og það ætla ég að gera,“ segir Gunnar Viðar Þórarinsson, athafnamaður frá Reyðarfirði.
Gunnar Viðar tekur formlega við rekstri bensínstöðvar Olís í Fellabæ þann 15. september og er að auglýsa eftir starfsfólki á stöðina um þessar mundir. Hann er ekki í vafa um að fá til sína fólk enda séu ágæt laun í boði en ef í harðbakkann slær þá mun hann sjálfur standa vaktina meðan þörf er á. Gunnar hefur góða reynslu af rekstri slíkra stöðva enda rekur hann meðal annars stöð Orkunnar á Reyðarfirði og er með stöðvar víðar um landið eins og á Ólafsfirði og Skagaströnd.
„Ég ætla svo sem ekki að breyta mikið. Ég sé fyrir mér að skerða opnunartímann frá því sem nú. Líklega verður opnað 11:30 eða 12 á daginn og opið fram til 18 eða svo. Það skýrist nákvæmlega á næstu dögum. Annað sem ég ætla að bjóða upp á þarna er að selja nikótínpúða á svipuðu verði og þeir fást í höfuðborginni en þeir kosta víðast hvar töluvert meira hér á Austurlandi. En allt þetta vinsæla eins og pylsurnar verða auðvitað áfram í boði.“
Bensínstöðin í Fellabæ verður rekin áfram á svipuðum nótum og verið hefur undanfarin ár en opnunartíminn þó styttur lítið eitt að sögn nýs rekstraraðila.