Skip to main content

Austfirsk sveitarfélög skipa aðgengisfulltrúa

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. sep 2022 12:12Uppfært 16. sep 2022 12:13

Austfirsku sveitarfélögin fjögur hafa nú lokið við að skipa aðgengisfulltrúa innan sinna raða sem ætlað er að kanna hvernig aðgengismálum fyrir hreyfihamlaða í sveitarfélögunum er háttað.


Í fyrra var gert samkomulag milli Öryrkjabandalags Íslands og stjórnvalda um að bæta aðgengi fatlaðs fólks að opinberum byggingum, almenningssamgöngum, útivistarsvæðum og fleiri svæðum. Framlagið var 700 milljónir til loka þessa árs. Í samkomulaginu er fjallað um nauðsyn þess að opinberir aðilar skipi aðgengisfulltrúa sem taki út aðgengið og hlutist til um tímasettar áætlanir um úrbætur, sé þess þörf.

Hjá Múlaþingi var Fanney Sigurðardóttir, sem sjálf notast við hjólastól, skipuð í janúar á þessu ári og er úttekt hennar í gangi.

Hafdís Bára Óskarsdóttir, iðjuþjálfi, var í síðustu viku skipuð aðgengisfulltrúi á Vopnafirði. Jón Grétar Margeirsson, fasteigna- og framkvæmdafulltrúi er aðgengisfulltrúi Fjarðabyggðar en í Fljótsdal er vinnan á hendi sveitarstjóra.

Vinna er víða í gangi í aðgengismálum, til að mynda var nýverið komið upp hjólastólalyftu í Egilsstaðakirkju. Ekkert sveitarfélaganna er þó enn orðinn formlegur aðili að verkefninu Römpum upp Ísland, sem miðar að því að setja upp 1.000 rampa á næstu fjórum árum.

Í Fjarðabyggð stendur til að óska eftir formlegu samstarfi. Á Vopnafirði hefur það ekki verið kannað og í Fljótsdal eru engir rampar komnir upp. Í svari Múlaþings kemur fram að aðgengismál séu í stöðugri skoðun og þau tryggð við nýframkvæmdir en hafa verði í huga að fleira skipti máli en ramparnir.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.