Skip to main content

Austfirskar hátíðir farið mjög vel fram í sumar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. júl 2022 11:44Uppfært 21. júl 2022 11:50

„Það er auðvitað tiltölulega stór helgi framundan en ég held að óhætt sé að segja að hátíðirnar hingað til í sumar hafa farið ótrúlega vel fram og vandræðalaust verið að mestu,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi.

Vart hefur farið framhjá Austfirðingum að hver hátíðin á fætur annarri hafa verið haldnar það sem af er sumri og töluvert enn framundan. Þessa helgina hefst Bræðslan á Borgarfirði eystra, Franskir dagar eiga sér stað á Fáskrúðsfirði og auk þess er Flugdagur á Egilsstöðum og Urriðavatnssundið er líka á dagskránni næstu dægrin. Það því í mörg horn að líta hjá lögreglu næstu sólarhringa.

Athygli hefur vakið að á þeim hátíðum sem þegar hafa farið fram hefur allt, eða því sem næst allt, verið á besta veg og vandamál eða vandræði fátíð. Kristján segir það helgast bæði af hertu eftirliti af hálfu lögreglu á hátíðunum en ekki síður skipuleggjendum sjálfum sem hafa undantekningarlítið haft allt sitt á hreinu og eftirlit þeirra sjálfra verið gott. Til að mynda komu engin stór mál upp á LungA á Seyðisfirði þrátt fyrir þúsundir gesta og engin vandamál heldur á bæjarhátíðinni Útsæði á Eskifirði um liðna helgi. Þá hafi fátt markvert komið upp á Eistnaflugi í Neskaupstað og þaðan af síður á Vopnaskaki á Vopnafirði.

„Við erum afskaplega ánægðir með hversu vel allt hefur gengið. Einhver minniháttar fíkniefnamál hafa komið inn á okkar borð en heilt yfir virðast gestir staðráðnir í að koma saman og njóta eins og það á auðvitað að vera.“

Sú var tíðin á hátíðum hvers kyns að ýmis leiðinleg vandamál gerðu vart við sig en hátíðirnar austanlands í sumar hafa að mestu farið fram vandræðalaust. Mynd Lögreglan á Austurlandi