Skip to main content

Austurland tapar hitameti sumarsins

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. sep 2022 09:09Uppfært 06. sep 2022 10:30

Staðfest var síðdegis í gærdag að hitastig á Mánárbakka á Tjörnesi hefði náð sléttum 25 stigum. Það er hæsti hiti sumarsins á landinu en fram að því hafði methitinn mælst 24,4 stig á Hallormsstað og Egilsstöðum í júnímánuði.

Sé miðað við síðastliðið sumar, og þá sérstaklega hér austanlands, hafa tiltölulega fáir hlýir dagar verið þetta sumarið. Á landsvísu segir Veðurstofa Íslands að einungis 27 sinnum þetta sumar hafi hitastig farið yfir 20 stig einhvers staðar. Þar á Austurland reyndar flesta þá daga.

Sú tala bliknar þó verulega miðað við sumarið 2021 þegar 20 stig eða hærra mældist alls 57 sinnum á mælum í landinu en þá aftur var Austurland með flesta slíka daga. Það sumar fór hitametið yfir 29 stig.

Síðustu dægrin hefur hitastig austanlands náð nokkrum hæðum á ný en ólíklegt þykir veðurfræðingum að nýja hitametið falli úr þessu þó óvenju hlýr loftmassi sé yfir landinu framyfir helgina. Í slíkum aðstæðum nær hiti sér yfirleitt ekki jafn vel á strik og þegar vindur knýr hnjúkaþey sem eykur jafnan hitastig hlémegin fjalla.