Skip to main content

Báðir bílar björgunarsveitarinnar á Vopnafirði laskaðir eftir útköll

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. okt 2022 12:17Uppfært 11. okt 2022 12:19

Báðar bifreiðar björgunarsveitarinnar Vopna á Vopnafirði eru laskaðar eftir óveðursútköll undanfarnar vikur. Von er á annarri þeirra til baka í þessari viku. Ekki er búið að greiða úr hver borgi viðgerðir á bílunum.


Fyrri bíllinn, Vopni 1, skemmdist í útkalli á Möðrudalsöræfum í stormi þar fyrir rúmum tveimur vikum. Sex rúður brotnuðu auk þess sem lakkið eyðilagðist í gríðarlegu sand- og grjótfoki. Von er á bílnum aftur í þessari viku og hefur þá verið skipt um rúðurnar. Þar með telst bíllinn tilbúinn í útköll vetrarins.

Ekkert verður gert við lakkið að sinni enda enn óráðið hver beri það tjón. Engar sérstakar reglur eru yfir bíla björgunarsveita og bæta tryggingar því aðeins rúðutjónið en ekki lakkskemmdirnar. Hinrik Ingólfsson, formaður Vopna, segir að enn sé haldið í vonina um sveitin þurfi ekki ein að standa straum af kostnaði við að heilsprauta bílinn.

„Það er verið að vinna í því og við höldum enn í vonina um að það verði að minnsta kosti komið til móts við okkur en það er ekkert fast í hendi. Það er svekkjandi ef björgunarsveitin þarf að bera þetta alfarið því hún er kölluð út,“ segir Hinrik sem útskýrir að björgunarsveitirnar vinni í umboði lögreglu þegar þær starfi á landið og útkallið fari þar í gegn.

Í gær brotnaði síðan öxull í framhásingu og aukamillikassi gaf sig í hinum bíl sveitarinnar, Vopna2. Verið var að skafa ísingu af raflínum í Vesturárdal. „Landið var erfitt yfirferðar, blautt og snjór. Síðan festist bíllinn og við að losa hann brotnaði drifbúnaðurinn,“ segir Hinrik. Hann segir tjónið nema einhverjum hundruðum þúsunda króna en málið sé ekki komið það langt að fyrir liggi hvert reikningurinn fari.

Rafmagn fór af efstu bæjum í dalnum á sunnudag og barði björgunarsveitarfólk af um 1 km kafla á línunni í gær. Starfsmenn Rarik halda áfram í dag en ísing er á um 4,5 km kafla í viðbót.

„Það er ís á línunni mest alla leiðina milli Fremri-Hlíðar og Hauksstaða þar sem bilunin kom upp. Línan sjálf er mikið sigri, á 4-5 stöðum niður í jörð og svo halla staurar í henni. Það var skafrenningur í gær og erfiðar aðstæður,“ segir Hinrik.

Þá var sveitin kölluð út á sunnudag vegna ferðafólk sem stefndi upp á Hellisheiði. Leiðsögutæki vísaði þeim þangað vitandi að Vopnafjarðarheiðin væri ófær. Hinrik segir fólkið hafa blessunarlega stoppað um leið og það kom upp í sjóinn og því ekki verið fast en óttaslegið í hálkunni.

Barist við ísinguna í Vesturárdal í gær. Mynd: Björgunarsveitin Vopni