Beint flug milli Egilsstaða og Frankfurt á næsta ári

Þýska flugfélagið Condor mun frá maí fram í október fljúga vikulega milli Frankfurt í Þýskalandi og Egilsstaða. Aðstandendur flugsins vonast til að það gefi vísbendingu til framtíðar um möguleika millilandaflugs um Egilsstaðaflugvöll yfir sumarmánuðina.

Condor er þriðja stærsta flugfélag Þýskalands og flytur um níu milljónir farþega. Það er stofnað árið 1956, var tekið yfir af þýska ríkinu í kjölfar gjaldþrots móðurfélagsins Thomas Cook árið 2019 en komst í hendur nýrra eigenda, Attestor, árið 2021.

Flugvöllurinn í Frankfurt er stærsti tengiflugvöllur Þýskalands og einn af þeim stærstu í Evrópu. Þannig eru þar bæði höfuðstöðvar Condor og Lufthansa, sem flýgur þaðan til 195 flugvalla í heiminum.

Í um 200 km radíus frá flugvellinum í Frankfurt búa um 38 milljónir manna, eða um 46% þýsku þjóðarinnar. Er þar meiri fjöldi en á upptökusvæðum flestra annarra flugvalla í Evrópu.

Þýskir ferðamenn hafa löngum verið meðal þeirra sem lengst dvelja og mest sækja Austurland. Þarlendar ferðaskrifstofur hafa þegar sýnt áhuga á fyrirhuguðu Egilsstaðaflugi Condor.

Alþjóðlegt áætlunarflug um Egilsstaðaflugvöll var síðast farið sumarið 2016 á vegum bresku ferðaskrifstofunnar Discover the World til Lundúna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.