Berjaspretta með lakara móti hingað til austanlands
„Ég á að sjálfssögðu mína spes staði en ég gef ekkert upp opinberlega um þær staðsetningar,“ segir Guðbjörg Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Múlaþingi.
Guðbjörg hlær dátt að þeirri fullyrðingu blaðamanns að hún sé sérfræðingur í berjatínslu þegar forvitnast var hjá henni hvernig berjaspretta á Austurlandi væri þetta síðsumar. Guðbjörg vel þekkt fyrir að vera ötul við að tína ber, geyma og nýta sér langt fram eftir vetri og hefur gert um langa hríð.
„Tíðin hefur nú ekki verið sérstaklega góð berjasprettu það sem af er. Það má vel finna ágæt krækiber víða nú þegar en bláberin þurfa einhverjar vikur til viðbótar til að vel sé. Sjálf hef ég oft týnt ber í septembermánuði með góðum árangri. Það þarf bara aðeins meiri sól og þurrk næstu daga og vikur og þá ættu bláberin að ná góðri stærð en við erum alltaf að tala um tvær til þrjár vikur í viðbót.“
Berjaspretta á landsvísu virðist döpur ef marka má fregnir annars staðar frá. Ekki er langt síðan greint var frá því í héraðsfréttamiðlinum Skessuhorni á Vesturlandi að berjaspretta þar væri léleg eftir sumarið. Sama hefur fregnast af Suðurlandi og Austurland virðist engin undantekning.
Krækiber eru víðast hvar á Austurlandi að ná góðri stærð en öðru gegnir um bláberin sem þurfa mun meiri tíma. Mynd Gamla Fljótsdalshérað