Skip to main content

Biluð vél raskar flugáætlunum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. sep 2022 13:40Uppfært 01. sep 2022 13:41

Miklar seinkanir hafa verið á innanlandsflugi síðustu daga þar sem önnur af stærri vélum sem Icelandair notar þar þurfti í viðhald. Félagið endurskoðar nú skilaboðasendingar sínar til farþega sem hafa þótt misvísandi síðustu mánuði.


Icelandair notar tvær rúmlega 70 sæta Bombardier Q400 auk þriggja Q200 véla, sem eru um helmingi minni, í innanlandsfluginu.

Síðasta laugardag þurfti að taka aðra stóru vélina, TF-FXI, úr áætlun vegna viðhalds. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair er reynt að koma henni sem fyrst á loft aftur en það hefur tafist vegna raskana í birgðakeðjum heimsins sem enn eru í lamasessi eftir Covid-faraldurinn.

Á meðan hefur TF-FXA verið á lofti en langt á eftir áætlun síðustu daga. Þegar er ljóst að kvöldflugið í kvöld verði um þremur tímum á eftir áætlun.

Miklar raskanir urðu á flugi í byrjun sumars vegna viðhalds véla og óvæntra bilana. Það hefur síðan komist á rétt ról og samkvæmt upplýsingum Icelandair hefur gengið mjög vel að fylgja áætlunum í ágúst.

Annað sem ergði flugfarþega í júní voru misvísandi skeytasendingar þegar tafir urðu á flugi. Stundum voru skeytasendingarnar kolrangar og hefur aftur borið á slíku nú. Í svari Icelandair við fyrirspurn Austurfréttar segir að heildaryfirferð verði gerð á skilaboðasendingum félagsins og þær kvartanir sem borist hafa teknar til skoðunar þar.