Skip to main content

Björn Hallur tekur við rekstri Sænautasels

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. okt 2022 15:40Uppfært 03. okt 2022 16:26

„Ég sé fyrir mér að þetta verði ósköp hefðbundið hjá mér en mig langar dálítið til að lagfæra aðstöðuna á tjaldsvæðinu ef færi gefst til,“ segir Björn Hallur Gunnarsson að Merki í Efri-Jökuldal.

Björn Hallur er nýr rekstraraðili Sænautasels næstu tvö árin en skrifað hefur verið undir samning þar að lútandi og segist Björn vera spenntur enda þyki honum vænt um staðinn. Hann hefur áður verið Lilju Óladóttur til halds og trausts á staðnum en hún hætti eftir sumarið eftir að hafa verið með reksturinn nánast frá upphafi þegar safn var opnað þar á sínum tíma.

„Þarna er alltaf gott að vera og ég þekki vel til. Auðvitað væri gaman að gera eitthvað fleira á staðnum og það hefur verið kvartað aðeins gegnum tíðina yfir aðstöðunni á tjaldsvæðinu. Þar vantar skjól og engin eldunaraðstaða ef gestum langar að gista aðeins lengur. En það kemur svo bara í ljós hvað verður.“

Sænautasel er án vafa einn merkilegasti staður Austurlands og þar er nú reksturinn tryggður næstu tvö árin hið minnsta.