Bjólfsvirkjun stöðvuð meðan orsök bilunar er skoðuð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. júl 2022 15:51 • Uppfært 19. júl 2022 16:01
Önnur af þeim tveimur virkjunum sem saman mynda Fjarðarárvirkjanir hefur verið stöðvuð á meðan orsaka fyrir rofi á aðveitulögn hennar er leitað. Þrýstipípa hefur farið í sundur nálægt stöðvarhúsinu tvisvar á rúmum mánuði.
„Múffur sem halda rörunum saman virðast vera að gefa sig,“ segir Guðmundur Ingi Jónsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar orkuvirkjunar sem rekur Fjarðarárvirkjanir.
Fjarðarárvirkjanir eru samheiti yfir virkjunarmannvirki á Fjarðarheiði og í Fjarðará í Seyðisfirði. Á heiðinni sjálfri er miðlunarlón og vatn leitt úr því eftir aðrennslisröri niður í Gúlsvirkjun. Þaðan rennur vatnið áfram niður í Bjólfsvirkjun, sem er í nágrenni Fjarðarsels þar sem elsta vatnsvirkjun landsins stendur.
Þann 10. júní síðastliðinn fór aðveiturör við Bjólfsvirkjun í sundur. Þrýstingurinn var mikill þannig að jarðvegsbakki gaf sig og skreið fram við Fjarðarselsvirkjun. Í gær fór aðveiturörið aftur í sundur, að þessu sinni heldur nær Bjólfsvirkjun. Áhrifin urðu þó mun minni að þessu sinni. „Þetta gerist við neðsta hluta pípunnar, þar sem þrýstingurinn er mestur,“ útskýrir Guðmundur.
Hann segir bilanirnar koma á óvart. „Þetta á ekki að geta gerst því pípurnar eru gerðar fyrir þennan þrýsting. Síðast skoðuðum við pípuna bæði upp eftir og niður eftir og það sá ekkert á henni, enda í raun ekki hún sem gefur sig.“
Von er á sérfræðingi frá Noregi á vegum framleiðenda röranna til landsins síðar í vikunni til að kanna ástandið. Næstu skref verða ákveðin í samráði við hann. „Við þurfum ráðleggingar frá framleiðanda um hvað eigi að gera. Mögulega þarf að taka upp hluta pípunnar. Svona getur þetta ekki gengið.“
Í júní stöðvaðist rekstur Bjólfsvirkjunar í fjóra daga. Guðmundur segir að hún verði ekki sett aftur af stað fyrr en ljóst sé hvað sé að gerast. Á meðan rennur vatnið um yfirfall út í Fjarðará. „Við gerum ekki við fyrr en búið er að skoða hvað er að gerast.“
Virkjanirnar voru formlega gangsettar vorið 2010. Uppsett afl Gúlsvirkjunar er 3,4 MW en Bjólfsvirkjunar 6,8 MW. Þær selja rafmagn inn á dreifikerfi Rarik.