Boðað til íbúaþings á Úthéraði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 26. ágú 2022 11:18 • Uppfært 26. ágú 2022 11:19
Boðað er til íbúaþings um málefni Úthéraðs til að marka upphaf nýs verkefnis um tækifæri og búsetugæði á svæðinu á morgun.
Á fundinum verður unnið með hugmyndafræði íbúaþinga Brothættra byggða, sem margir íbúar á Austurlandi þekkja, til að fá fram hugmyndir og markmið heimamanna á Úthéraði um þau tækifæri og möguleika sem svæðið býr yfir.
Fundurinn er liður í nýju byggðaverkefni á Úthéraði sem kemur í beinu framhaldi af öðru verkefni, sem lauk í apríl á þessu ári, en það var unnið á grunni svonefndrar byggðaáætlunar sem lýsir stefnu ríkisins í byggðamálum og markmið þess verkefnis var m.a. að skoða möguleika á friðlýsingu svæðisins.
Verkefnahópur hefur verið myndaður um þetta nýja verkefni og í honum eru fulltrúar heimamanna. Þá var ákveðið í vor að vinna með Austurbrú og starfa Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri, og Tinna Halldórsdóttir, yfirverkefnastjóri innri mála og rannsókna, þétt saman með hópnum.
Verkefnahópurinn hefur fundað fjórum sinnum og auk skipulagningar á íbúaþinginu hefur hópurinn lagt fyrir spurningakönnun til að fá fram viðhorf íbúa til ýmissa þátta svo sem þjónustu, innviða, málefna sem hafa verið í umræðu varðandi svæðið og þá ímynd sem einkennir það.
Verkefnið nýtur stuðnings sveitarfélagsins Múlaþings sem styrkir verkefnið um þrjár milljónir króna. Verkefnastjórnin hvetur fólk til að mæta á fundinn og leggja sitt lóð á vogarskálarnar.
Þingið er haldið í Brúarási og hefst klukkan 11 á morgun, laugardag.