Býst við að byrjað verði að grafa Fjarðarheiðargöng í apríl/maí 2024

Núverandi áætlanir gera ráð fyrir að eiginlegur gröftur Fjarðarheiðarganga hefjist í apríl eða maí árið 2024. Þau verði síðan tilbúin fyrir almenna umferð snemma árs 2030. Viðbúið er að mikið þurfi að leggja í styrkingar vegna veikra berglaga, líkt og í öðrum jarðgöngum á Austurlandi.

Þetta kom fram í erindi Matthíasar Loftssonar, jarðverkfræðings hjá Mannviti á degi verkfræðinnar nýverið. Mismunandi verkþáttum er deild milli verkfræðistofa þar sem Mannvit sér um gröftinn, styrkingar, veg og lagnir. Efla og Verkís sjá um aðra þætti.

Matthías sagði núverandi áætlanir gera ráð fyrir að eiginlegur gangagröftur hefjist í apríl/maí árið 2024. Nánari tímasetningar einstakra verkliða voru á glæru sem hann sýndi en þar var gröfturinn dagsettur um miðjan apríl það ár.

Þar mátti einnig lesa að nú sé unnið að útboðslýsingu sem verði tilbúin um miðjan janúar. Í kjölfarið verði verkið boðið formlega út og samið um það um miðjan maí. Þá getur aðalverktakinn ráðist í innkaup og aðgöng. Hann nýti síðan næsta haust í að koma sér fyrir. Matthías benti á að þá væri strax hægt að byrja að grafa forskeringar, það er að segja grafa inn að ákveðinn lágmarksþykkt bergs áður en gangagröfturinn sjálfur hefst.

Í áætluninni var lagt upp með að meðaltali yrðu grafnir 40 metrar í bergi á viku og ljúki um miðjan maí árið 2027. Skömmu áður verður hægt að hefjast handa við eftirvinnu, svo sem lokastyrkingar. Eiginleg vegagerð fer ekki af stað fyrr en haustið 2027 og vinna við raflagnir í janúar 2028. Matthías benti á að það væri mikið verk, tæki um 1,5 af 2,5 árum lokafrágangsins.

Miðað við þetta yrðu göngin klár í febrúar 2030 og þá hægt að opna þau fyrir umferð. Matthías benti þó á að ekki væri búið að njörva tímaáætlunina endanlega niður og gæti hún því enn breyst.

Jarðfræðin svipuð og í Norðfjarðargöngum

Göngin sjálf verða 13,3 km löng og byggð eftir norskum veggangastaðli. Miðað við hann er breidd þeirra 9,5 metrar í veghæð þar sem vegurinn sjálfur er 7,5. Slík göng eiga að geta ráðið við meira en 1.500 bíla á dag. Í göngunum verða útskot með 500 metra millibili sem hvert er 30 metra langt auk að- og fráreyna. Þá eru ótalin snúnings- og tæknirými. „Þetta þýðir fjölmörg verkfræðileg viðfangsefni,“ sagði Matthías.

Í erindi sínu ítrekaði hann hversu mikil vinna væri eftir þótt búið sé að grafa í gegnum fjallið. Meðal annars þarf að setja upp vatnklæðningu, plastdúk með steypu yfir, sem halda á göngunum þurrum. Þá verða lagðir í göngin rafvírar- og ljósleiðari mun lengri en göngin, eða milli 30-40 km.

Mest ræddi Matthías þó jarðfræði ganganna og fór þar meðal annars yfir gögn úr rannsóknum Ágústs Guðmundssonar, jarðfræðings á Fáskrúðsfirði. Sagði Matthías að jarðfræðin í Fjarðarheiðinni líktist mest þeirri sem er í kringum Norðfjarðargöngin sem opnuð voru haustið 2017. „Eins og við vitum þá eru einkenni svæðisins fjölmörg þykk setlög, eins misgengi og sprungur,“ sagði hann.

Setlögin eru laus í sér og þarf því að styrkja göngin sérstaklega þar sem þau eru. Rannsóknir benda til að í Fjarðarheiðinni séu þó nokkur setlög sem eru meira en átta metrar á þykkt. Á þynnri svæðum dugir sprautusteypa og bergboltar en þar sem lögin eru komin yfir 2-3 metra er alltaf lagt til að nota sprautustyrktarbogum.

Máli sínu til stuðnings sýndi Matthías mynd úr Bolungarvíkurgöngum um hvað gerist þar séu bogarnir ekki settir nógu tímanlega til að halda sniðinu stöðugu. Gallinn er hins vegar að bogarnir eru allt að tíu sinnum dýrari en aðrar styrkingar. Áætlað er að þá þurfi á allt að 1,2 km kafla í Fjarðarheiðargöngunum. „Þetta er ein þeirra áskorana sem þarf að mæta,“ sagði Matthías.

Hægt er að grafa um 60-70 metra á viku ef bergið er gott en það fer niður í 20 metra þar sem bergið er laust eins og í setbergslögunum. Sem fyrr segir er búist við 40 metrum á viku í áætlunum. Við gröftinn fellur til um milljón rúmmetra af efni sem koma þarf út úr þeim.

Fylgjast með vatninu

Matthías kom einnig inn á hættuna á innrennsli vatns úr Heiðarvatni á Fjarðarheiði, miðlunarlóns virkjana Fjarðarár, í göngin. Matthías sagði að boraðar yrðu könnunarholur meðan grafið yrði og brugðist við með bergþjöppun fari innrennsli yfir ákveðin mörk. Hann ræddi stuttlega þann vanda sem heitt vatn hefði skapað í Vaðlaheiðargöngum en benti á að ekki væri vitað um neinn jarðhita í Fjarðarheiðinni. Rannsóknir bentu til berghita upp á 25-30 gráður en til samanburðar hefði berghiti farið mest í 35°C í Fáskrúðsfjarðargöngum og 25°C í Norðfjarðargöngum.

Í lok erindisins bárust Matthíasi tvær spurningar úr sal, annars vegar um þjóðhagslega hagkvæmni ganganna, hins vegar hvort rétt væri að fara aðrar leiðir á Austurlandi í jarðgöngum, til dæmis byrja á leiðinni frá Norðfirði til Seyðisfjarðar sem í dag á að vera á eftir. Matthías sagði ekkert leyndarmál að göngin væru dýr, 40-45 milljarðar en aðrir yrðu að meta hagkvæmnina. Eins mætti lengi deila um á hvorum endanum ætti að byrja en það væri á borði pólitíkurinnar frekar en hans.

Erindi Matthíasar má sjá í spilaranum hér að neðan. Það hefst eftir 2 tíma og 55 mínútur. Glæru með áætluðum tímasetningum birtist eftir 3 tíma og 11 mínútur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.