Cittaslow-hátíð Djúpavogs fer loks fram á sunnudaginn
Ákveðið hefur verið að Cittaslow-hátíð Djúpavogs fari fram á sunnudaginn kemur en hátíðinni var frestað fyrir skömmu vegna ofsaveðursins sem gekk yfir Austurlandið.
Djúpivogur er enn þann dag í dag eina bæjarfélag landsins sem er aðili að Cittaslow-hreyfingunni, sem á rætur að rekja til Ítalíu, en sú hreyfing gengur út á að fólk taki sér sinn tíma í daglegar athafnir og fari sér að engu óðslega í einu né neinu. Með öðrum orðum að lífið sé of stutt fyrir stress og hraða og virðingu skuli hafa fyrir menningu og gildum hvers staðar fyrir sig.
Hátíðin hefst klukkan 13 með opnun markaðar í Löngubúð auk þess sem Faktorshúsið verður opnað gestum. Hálfri klukkustund síðar opnar listasafnið Ars Longa fyrir gestum en þar fer fram bæði óskastund og menningarmót. Klukkan 17 býður svo Völustígur áhugasömum upp á slökun og kyrrðargöngu til að finna innri ró auk fallegrar samveru. Síðast, en ekki síst, ætlar Stefán Óli Baldursson, listamaður, að útskýra vegglistaverk sitt við Kallabakka en myndirnar þar eru unnar út frá gömlum ballmyndum frá Djúpavogi.