Dæmdur fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt erlendan ríkisborgara í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum við komuna til Seyðisfjarðar með Norrænu í lok maí.

Við vegabréfaskoðun á Seyðisfirði framvísaði maðurinn spænsku skilríki sem strax virðist hafa vaknað grunur um að væri ekki löglegt enda segir í ákæru að skjalið sé falsað frá grunni.

Maðurinn virðist strax við skýrslutöku hafa játað verknaðinn og er það í samræmi við önnur gögn málsins, meðal annars frá alþjóðalögreglunni Interpol. Maðurinn hafði áður reynt að komast inn á Schengen-svæðið í ágúst 2020 en þá verið meinuð innganga af ítölsku lögreglunni og hann fengið þriggja ára endurkomubann.

Í dóminum kemur fram að maðurinn hafi alla tíð verið samvinnuþýður við rannsókn málsins. Strax við upphaf hennar hafi hann skýrt frá eiginnafni sínu og játað verknaðinn. Eftir að hann var leystur úr gæsluvarðhaldi og settur í farbann fór maðurinn eftir öllum reglum og tilkynnti reglulega um viðveru sína hérlendis.

Í ljósi þessa, og að maðurinn á engan sakaferil að baki hérlendis, var hæfileg refsing talin 30 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára. Honum var einnig gert að greiða sakarkostnað, tæpar 375 þúsund krónur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.