Dalai Lama fékk æðardúnssæng frá Íslenskum dún á Borgarfirði

Dalai Lama, leiðtoga tíbeskra búddista, áskotnaðist nýverið sæng úr æðardúni frá Borgarfirði eystra að gjöf. Framkvæmdastjóri Íslensks dúns segir heiður að hafa fengið að taka þátt í gjöf til leiðtogans.

„Þetta kom þannig til að Þórhalla Björnsdóttir, sem þekkir til Dalai Lama og stóð að komu hans til Íslands árið 2009, hafði samband við okkur snemma í sumar því hana langaði til að gefa honum eitthvað fallegt frá Íslandi sem nýttist vel.

Dalai Lama er orðinn 87 ára gamall og er oft kalt þannig að hún gat ekki hugsað sér neitt betra og tilhlýðilegra en æðardúnssæng,“ segir Ragna S. Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Íslensks dúns á Borgarfirði eystra.

„Okkur fannst þetta frábær hugmynd. Ef einhver á að eiga æðardúnssæng frá Íslandi sem unninn er á jafn sjálfbæran hátt og íslenski æðardúnninn, þá er það Dalai Lama. Þess vegna ákváðum við strax að taka þátt í gjöfinni.“

Dalai Lama hefur í meira en hálfa öld búið í útlegð í Indlandi í þorpi í Himalajafjöllum. Þar leiðir hann útlagastjórn Tíbeta. Þórhalla hefur meðal annars búið í Indlandi og hún færði ritara leiðtogans sængina fyrir tveimur vikum.

Í vikunni fékk hún svo símtal þar sem hún var beðin að koma til að afhenda sængina formlega í eigin persónu. Það var gert í gærmorgun. Ragna segir að Íslenskum dún hafi síðar borist myndir úr athöfninni þar sem Þórhalla sé að útskýra fyrir Dalai Lama og aðstoðarfólki hvernig íslenski dúnninn sé unninn.

„Ef satt skal segja lít ég á það sem heiður að Þórhalla hafi leitað til okkar og við höfum fengið að taka þátt í þessari myndarlegu gjöf,“ segir Ragna að lokum.

Myndir frá því þegar Þórhalla afhenti Dalai Lama sængina í eigin persónu í gær. Myndir: Skrifstofa Dalai Lama

dalai dunn 2

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.