
Danskar þotur væntanlegar til æfinga
Dönsk flugsveit kemur til landsins í dag til að gæta lofthelgi Íslands. Þotur á vegum hennar munu æfa á Egilsstöðum á næstu dögum.Samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni verða dönsku þoturnar við æfingar á Akureyri og Egilsstöðum einhvern tíma fram til 20. ágúst. Flugsveitin er annars með aðsetur á Keflavíkurflugvelli og sér um gæsluna fram í miðjan september.
Danska flugsveitin samanstendur af fjórum F-16 orrustuþotum og 70 liðsmönnum. Flugsveitin tekur þátt í verkefninu ásamt starfsmönnum í stjórnstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center) og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, (NATO Control and Reporting Center-Keflavik). Landhelgisgæsla Íslands annast framkvæmd verkefnisins í umboði utanríkisráðuneytisins og í samvinnu við Isavia.
Þetta er í fimmta sinn sem Danir leggja Atlantshafsbandalaginu til flugsveit til að taka þátt í verkefninu á Íslandi, síðast árið 2018.