Deildarmyrkvinn sést varla á Austurlandi
Miðað við veðurspá morgundagsins eru litlar sem engar líkur á að deildarmyrkvi á sólu sjáist á Austurlandi. Gert er ráð fyrir alskýjuðu veðri í fjórðungnum
Sævar Helgi Bragason stjörnufræðikennari fjallar um deildarmyrkvann á Facebook síðu sinni. Þar segir að myrkvinn hefst klukkan 08:59 í fyrramálið, þriðjudag, þegar tunglið snertir skífu sólar. Sólin er þá rétt ný risin og mjög lágt á lofti í aust-suðaustri. Myrkvinn nær hámarki tæpri klukkustund síðar, kl. 09:46. Deildarmyrkvanum lýkur svo kl. 10:35.
„Frá Reykjavík séð hylur tunglið þá um 20% af skífu sólar en í kringum 25% frá norðaustur- og austurhelmingi landsins,“ segir Sævar Helgi.
„Til að sjá myrkvann verður að nota viðeigandi hlífðarbúnað eins og sólmyrkvagleraugu eða sólarsíur. Ský gætu líka búið til náttúrulega síu sem gæti gert kleift að koma auga á myrkvann.“
Sævar segir einnig að vonandi sjáist tunglið bíta sneið úr sólinni á þriðjudagsmorgun. Horfið til himins.
Mynd: vísindavefur.is