Skip to main content

Dilkar töluvert léttari en verið hefur

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. nóv 2022 11:09Uppfært 04. nóv 2022 11:11

„Ætli þetta hafi ekki verið um 27 þúsund gripir sem við slátruðum nú svo fækkunin heldur áfram en öllu verra að gripirnir eru svona kílói léttari en verið hefur,“ segir Skúli Þórðarson, framkvæmdastjóri Sláturfélags Vopnfirðinga.

Haustslátrun lauk þar fyrir nokkru og nú vinna menn hörðum höndum að því að ganga frá eftir vertíðina en velflestir sauðfjárbændur austanlands senda gripi sína til slátrunar á Vopnafirði.

Skúli segir ljóst að veðurfar hafi haft mikil áhrif á lömbin þetta sumarið enda hafi hitastig verið í lægri kantinum meira og minna í allt sumar.

„Það er nokkuð augljóst að vöðvamassi gripa þetta skiptið er töluvert undir því sem verið hefur og er heilt kíló niður á við hjá okkur sýnist mér. Það er eitthvað tengt veðrinu hér austanlands auðvitað en það er eins og gróðurinn hafi ekki verið eins næringarríkur og áður hverju sem um er að kenna.“

Sláturfélag Vopnfirðinga, líkt og aðrir sláturaðilar, hækkuðu afurðaverð til bænda duglega þetta haustið eða um rúmlega 34 prósent milli ára. Skúli telur víst að sú hækkun hafi valdið því að færri brugðu búi og héldu búskap áfram enda löngu kominn tími á slíkar hækkanir.

„Slíkt hjálpar auðvitað til en svo á eftir að koma í ljós hvernig neytendur taka svo í þær verðhækkanir sem auðvitað er fylgifiskur hærra afurðaverðs. Þörfin var þó brýn því áburðarverð til bænda hefur hækkað drjúgt á skömmum tíma og ekki séð fyrir endann á þeim hækkunum enn.“