Dreymir um hestamannasvæði við Djúpavog

„Það eru foreldrar hér að senda börnin sín langar leiðir til Egilsstaða eða Hornafjarðar á reiðnámskeið við góðar aðstæður og okkur langaði að koma til móts við þennan mikla áhuga,“ segir Berglind Elva Gunnlaugsdóttir, hjá hinu nýstofnaða hestamannafélagi Glampa á Djúpavogi.

Félagið er glænýtt af nálinni og samanstendur af fimm fjölskyldum með mikinn áhuga á hestamennsku og hestaíþróttum en þetta mun vera í fyrsta sinn sem sérstakt hestamannafélag er stofnað á þessum slóðum eftir því sem næst verður komist.

Forsvarsmenn, þær stöllur Þórhildur Katrín Stefánsdóttir og Berglind Elva, biðu ekki boðana eftir stofnun heldur hófu strax að kanna hvort mögulegt væri að fá úthlutaðu svæði undir hestmennsku nálægt bænum og segir Berglind Elva að þar sé draumurinn svokallað Loftskjól nálægt Bóndavörðunni velþekktu í bænum. Vinkonurnar hafa bæði fundað með heimastjórn Djúpavogs og umhverfis - og framkvæmdaráði Múlaþings að undanförnu.

„Þetta eru auðvitað fyrstu skrefin en menn eru reiðubúnir að skoða þetta með okkur. Það er fjöldi fólks hér á svæðinu sem stundar hestamennsku en hefur ekki sérstakt svæði til umráða sem er til dæmis mikilvægt varðandi kennslu barna og unglinga auk þess sem þetta eykur útivistar- og afþreyingarmöguleika hér á svæðinu. Þar er erfitt að finna eitthvað neikvætt við hestamannasvæði.“

Á síðasta fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings var málið tekið fyrir en frekari umræða mun eiga sér stað á næsta fundi ráðsins.

Mynd: Sérstök hestamannasvæði finnast víða við þéttbýli í landinu enda hestamennska og hestaíþróttir vinsæl iðja.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.