Skip to main content

Eðlilegt að draga úr veiðum á svæði 2

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. sep 2022 14:08Uppfært 08. sep 2022 14:13

Líffræðingur segir eðlilegt að áfram verði dregið úr hreindýraveiðum á svæði tvö í ljósi þess að fá hreindýr finnist þar á veiðitíma. Óvissa sé alltaf í talningum því þær séu erfiðar en ekkert bendi til annars en hreindýrastofninn sé almennt í góðu ásigkomulagi.


„Þar ríkir kannski ekki mikil óvissa um heildarstofnstærðina heldur hvar dýrin halda sig,“ segir Skarphéðinn G. Þórisson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands sem í áratugi hefur leitt rannsóknir á íslenska hreindýrastofninum.

Austurfrétt hefur í vikunni fjallað um áhyggjur bæði Umhverfisstofnunar og leiðsögumanna með hreindýraveiðum af ástandi stofnsins á svæði 2, sem í grófum dráttum er milli Grímsár og Jökulsár á Dal með þungamiðjuna á Fljótsdalsheiði. Í umræðunni er hvort rétt sé að friða svæðið í einhver ár meðan stofninn þar nær sér á strik á ný. „Ég tek undir að það er sárt að sjá dýrin ekki inn við Snæfell sem hefur verið þeirra aðalsvæði á sumrin,“ segir Skarphéðinn.

Auknar sveiflur frá aldamótum

Hann segir þó að fækkun á svæðinu, eða miklar sveiflur milli ára, sé ekki nýtilkomin. „Um 2000 förum við að sjá afgerandi breytingu á háttarlagi dýranna. Fram að þeim tíma höfðu Vesturöræfi og Snæfellsöræfi verið þeirra aðal sumarheimkynni en næstu sumur yfirgefa þau svæðið og ganga út á Fljótsdalsheiðinni. Þar voru vetrarhagar þeirra og því töldum við ekki æskilegt að mörg dýr væru þar á sumrin svo þeim var fækkað með veiðum.

Um 2010 eru dýrin upp á Fljótsdalsheiði en eftir það sjáum við þau lítið þar í sumartalningum okkar, sem eru í júlí. Ef við lítum á það sem hefur gerst síðan þá leita dýrin í fyrsta lagi norður á svæði 1 og líka einnig yfir á svæði 7. Við vitum ekki hve mörg dýr fóru þangað af svæði tvö en stofninn á svæði 1 óx ár frá ári.

Við höfðum áhyggjur af Vesturöræfum en þeim fjölgaði þar um tíma. Árið 2017 voru þar 1500 dýr, um 1000 2018 og 19 en ekki nema 284 árið 2020 og 75 í fyrra. Í ár sást ekkert dýr á Vesturöræfum þegar talið var í júlí en í ágúst fannst þar lítill hópur. Við höfum minnkað kvótann í samræmi við þetta en við erum alltaf að bregðast við eftir á því kvóti næsta árs byggir á talningum síðasta árs.

Á sama tíma eru miklar sveiflur í fjölda dýra á svæði 2, ekki síst á austurheiðunum í nágrenni Skriðdals. Við teljum fækkunina á þessu svæði skýrast af auknu flakki dýranna. Á fjörðunum er erfitt að telja, dýrin eru þar hátt uppi í litlum hópum. Við reyndum þó að hafa vaðið fyrir neðan okkur og mátum hjörðina á svæði 2 minni en undanfarin ár enda minnkaði kvótinn um 100 dýr,“ segir Skarphéðinn.

Engin merki um að dýr hafi hríðfallið

Reglubundnar talningar fara fram með flugi yfir svæðin. Þess utan er fylgst með fjölda og ástandi dýranna, meðal annars út frá skýrslum leiðsögumanna. „Eitt af því sem bætt getur útreikninga okkar eru betri upplýsingar frá þeim meðan veiðum stendur. Sumir láta vita af hópum, til dæmis fréttum við nýverið af 600 dýra hópi í Hofsdal en í flugtalningu á öllu veiðisvæði 7 fundum við aðeins 459 dýr í júlí,“ segir Skarphéðinn en veiðimönnum ber að veita upplýsingar um þyngd og holdafar dýranna.

Meðal annars út frá þeim upplýsingum, sem og þeirri staðreynd að ekki hafa fundist fjöldi dauðra dýra, virðist dýrin hafa gott aðgengi að fæðu á veturna. „Ef dýrin falla mörg þá gerist það seinni part vetrar. Þá drepast kálfarnir og gömlu tarfarnir fyrst. Við höfum ekki séð nein ummerki slíkt nýverið og höfum almennt ekki séð mörg slíkt dæmi hérlendis. Hér er næg sumarbeit og ef vetrarbeitin bregst ætti dánartíðni að vera hærri. Við höfum ekki séð neitt slíkt, almennt virðist heilbrigði þeirra gott.“

Senditæki bæta talningar verulega

Undanfarin ár hefur verið reynt að koma gervihnattasenditækjum fyrir á hreindýrum. Skarphéðinn segir þau tæki hafa veitt afar mikilvægar upplýsingar sem styðji við kenningar um aukið flakk dýranna. „Við höfum dæmi um tvær kýr sem báðar stefndu í áttina að Snæfelli og Vesturöræfum fyrir burð en snarsnéru síðan við, önnur bar fyrir ofan Brú á Jökuldal en hin niður í Hamarsfirði. Önnur kýrin hefur í sumar flakkað fram og til baka milli svæða.

Við vitum að það verður alltaf óvissa í talningum því ekki er hægt að telja öll dýrin en þessi tæki hafa hjálpað verulega. Þegar við töldum í Vopnafirði í sumar fundum við fyrst 234 dýr en þá vantaði hópa með tveimur kúm með tæki. Við fundum þær í þriðju tilraun og með þeim 444 dýr sem við hefðum annars misst af.

Þess vegna er ljóst að fleiri dýr með senditæki bæta niðurstöður talninga auk þess sem þau sýna hvernig dýrin flakka milli svæða. Þess vegna stefnum við á að hengja tæki á minnst 5-6 kýr til viðbótar í vetur, sérstaklega svokallaða „línubrjóta“ sem virða ekki þessa svæðaskiptingu okkar,“ útskýrir Skarphéðinn.

Nýliðun í lagi

Leiðsögumenn hafa lýst áhyggjum af því að nýliðun stofnsins á svæði 2 sé nú borin uppi af yngri kúm, sem ekki séu jafn frjósamar og hinar eldri. Skarphéðinn kveðst ekki hafa þungar áhyggjur af því.

„Veiðimenn hafa í tugi ára reynt að skjóta stærstu og flottustu kýrnar en ef það gengi eftir þá hefðum við átt að sjá breytingar á nýliðun fyrir löngu. Við sjáum sveiflur í nýliðun á milli ára auk þess sem það er misjafnt milli svæða. Hlutfall kálfa hefur til dæmis alltaf verið hærra á svæði 1 en 2. Yfirleitt hefur það verið um 50% á Fljótsdalsheiðinni sem er eins og það best gerist í Noregi. Við sjáum því ekkert sem bendir til þess að nýliðun hafi hrapað en hún sveiflast á milli ára.

Þvert á móti lentum við í því á árunum 2000-10 að sumarstofninn á Austurlandi tvöfaldaðist. Ástæða þess að veiðin hélt ekki í við nýliðunina . Tilgangur veiðanna er að vera með sjálfbæran stofn og tryggja að þéttleikinn fari ekki yfir ákveðin mörk.“

Eitthvað í náttúrunni sem fælir dýrin frá?

Skarphéðinn segir hins vegar stærri spurningar hvers vegna dýrin virðist síður vilja vera í nágrenni Snæfells en áður, einkum síðustu tvö ár. „Eftir tilkomu greiðfærra vega á virkjanaslóðum og Háls-, Ufsar- og Kelduárlón er alltaf umferð á þessu svæði og af henni leggur lykt og hávaða. Það kann að vera hluti skýringarinnar.

Við spyrjum líka hvort eitthvað hafi breyst á vetrarbeitisvæðunum sem varð til þess að dýrin leituðu sunnar og undu sér síðan vel þar. Lengi vantaði upp á fæðu- og beitirannsóknir en síðan hefur verið sett á vöktun á gróðurlendum á hluta Snæfellsöræfa og Fljótsdalsheiði í sumarhögum. Einnig var áhersla lögð á vetrarbeit, ekki hvað síst norðan Vopnafjarðar.

Hér fyrir nokkrum áratugum drógu framsýnir menn línu á Fljótsdalsheiði og handan hennar mátti ekki veiða kýr fyrr en vel var liðið á ágúst. Síðar var komið á griðlandi í kringum Snæfell. Leiðsögumenn áttu þátt í að það var afnumið af ótta við að dýrin lærðu á svæðið og hópuðust þangað inn. Gögn um hagagöngu þeirra bendir þó til að litlar líkur séu á að þau hefðu hangið þar allan tímann. En mögulega liði dýrunum betur á svæðinu ef þar væru enn veiðitakmarkanir,“ segir Skarphéðinn.

Leiðsögumennirnir hafa einnig lýst áhyggjum af fleiri svæðum. Almennt álítur Skarphéðinn þau í ágætu ástandi þótt reyndin sé sú að fá dýr hafi sést á svæði 6 í sumar, sem meðal annars nær frá sunnanverðri Grímsá og niður í Breiðdal. „Við höfum líka sér miklar sveiflur þar. Á svokölluðum Austurheiðum fundust 528 dýr í fyrra en nú aðeins 131 og þar af 33 á svæði 6. Þau hafa vart öll drepist.“

Ljóst að kvótinn verður minnkaður verulega

Náttúrustofa Austurlands gefur út mat sitt á hreindýrastofninum og tillögur að veiðikvóta að hausti. Eftir umfjöllun hjá hagaðilum ganga þessi gögn áfram til Umhverfisstofnunar og loks ráðherra sem gefur út endanlegan kvóta. Skarphéðinn segir nokkuð ljóst að kvótinn á svæði 2 í ár verði minni en undanfarin ár og mögulega sé rétt að ganga svo langt að friða svæðið alveg.

„Mér finnst slíkt tillaga alveg eðlileg. Það er erfitt fyrir þá sem stjórna veiðunum að selja veiðar þar sem fá dýr ganga. Miðað við stöðuna nú er hægt að segja að það hefði verið betra að kvótinn hefði verið minni á svæði 2 en það er ekki auðvelt að færa hann á önnur svæði, þetta er það svæði þar sem aðgengi að veiðum hefur verið auðveldast.

Það getur verið að hreindýrastofninn hafi verið ofmetinn vegna flakks, hve mikið vitum við ekki, það er ekkert sem bendir til þess að hann hafi hrunið. Við hjá Náttúrustofunni eigum enn eftir að fá frekari upplýsingar um fjölda dýra áður en við leggjum til kvótann í nóvember en það er nokkuð ljóst að við munum draga áfram verulega úr honum á svæði 2. Það er ekki hættulegt, það er hægt að bregðast við síðar ef dýrunum fjölgar allt í einu verulega á svæði 2 á næstu árum.“