Eftirför lauk inni í garði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. ágú 2022 11:35 • Uppfært 22. ágú 2022 11:38
Ökumaður er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna á Egilsstöðum aðfaranótt sunnudags. Tilraunum lögreglu til að hafa afskipti af manninum lauk með árekstri við hús eftir ofsaakstur.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi urðu laganna verðir fyrst varir við bílinn á leið niður Fagradalsbraut. Þeir héldu á eftir og gáfu ökumanni merki um að stansa til að kanna ástand hans.
Hann gaf hins vegar í og hélt inn Tjarnarbraut. Þar endaði eftirförinni með því að maðurinn missti stjórn á bílnum, hentist yfir umferðareyju og á útvegg húss áður en hann endastakkst niður að kjallaranum.
Þótt atvikið hafi ekki litið vel út sakaði ökumanninn ekki. Hann var handtekinn grunaður um ofsaakstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Honum var sleppt að lokinni skýrslutöku í gær.
„Svona gerist ekki á litlum hraða þótt við getum ekki staðfest núna hversu mikil ferðin var,“ segir Hjalti Bergmar Axelsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Einn annar ökumaður var tekinn í umdæminu grunaður um ölvun við akstur um helgina. Mál hans var afgreitt á hefðbundinn hátt. Nokkrir ökumenn voru teknir fyrir of hraðan akstur.
Lögregluþjónar frá embættinu voru í morgun á eftirlitsferð á hálendingu og höfðu meðal annars viðkomu í Snæfellsskála. Hjalti segir lögregluna reyna að líta til með svæðinu eins oft og hægt er, meðal annars vegna utanvegaaksturs.
„Því miður er alltaf eitthvað um hann. Það gengur misvel að ná í utan um slík atvik en tekst blessunarlega nokkrum sinnum. Þetta er annars eilífðar verkefni.“
Mynd: Aðsend