Eggin verða færð úr Gleðivík
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. jún 2022 11:09 • Uppfært 28. jún 2022 11:20
Sveitarfélagið Múlaþing og listamaðurinn Sigurður Guðmundsson hafa komist að samkomulagi um að vinna saman að flutningi listaverksins Eggjanna í Gleðivík úr víkinni. Banaslys varð á svæðinu fyrir viku þegar gangandi ferðamaður varð fyrir lyftara. Áhyggjur hafa verið af öryggi gangandi vegfarenda þar, sem víðar á Djúpavogi, um nokkurt skeið.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu þeirra Sigurðar og Björns Ingimarssonar í kjölfar fundar þeirra síðasta fimmtudag. Hún var send út seint í gærkvöldi.
Þar harma þeir hið sorglega slys og lýsa vilja til að gera allt sem þeir geti til að koma í veg fyrir að nokkuð því líkt geti gerst aftur.
Eggin eru eftirmyndir 34 eggja varpfugla í Djúpavogi og voru afhjúpuð í Gleðivík á Djúpavogi um miðjan ágúst 2009. Þau hafa síðan orðið eitt mesta aðdráttarafl Djúpavogs, tug þúsundir gesta skoða þau hvert ár og eru því eitt vinsælasta útilistaverk landsins.
Ferðamennska og fiskeldi mætast
Þegar eggin voru afhjúpuð var takmörkuð starfsemi í Gleðivík enda fiskimjölsverksmiðjan, sem þar stóð, aflögð. Síðustu misseri hefur hins vegar verið að byggjast þar upp starfsemi tengd auknu fiskeldi, þannig er ný kassaverksmiðja staðsett í víkinni. Frekari uppbygging er þar fyrirhuguð, hugmyndir um laxasláturhús og unnið að nýju aðal- og deiliskipulagi.
Í erindi sem Búlandstindur, sem áformar laxasláturhúsið, sendi Múlaþingi síðasta haust er hvatt til þess að í ljósi vaxandi umferðar bæði vinnutækja og gangandi í Gleðivík verði gengið í að tryggja bæði nægt rými til atvinnustarfsemi og öryggi gangandi ferðafólks. Við umræður í sveitarstjórn var lögð áhersla á að strax yrði farið í að hugsa svæðið til lengri tíma þar sem skipulagsmál taki alltaf tíma.
Í frétt RÚV í kjölfar slyssins var greint frá því að kaðall hefði verið strengdur í Gleðivík til að aðskilja eggin frá athafnasvæðinu. Í yfirlýsingu Sigurðar og Björns segir að listamaðurinn hafi verið mótfallinn slíkri girðingu. Kaðallinn lá niðri þegar slysið varð, hafandi verið tekinn niður í vetur og ekki komið upp aftur. Í yfirlýsingunni segir að óvíst sé að hann hefði komið í veg fyrir slysið, því þau sem sæki staðinn fari ekki öll markaða gönguleið. Þess vegna sé það samdóma álit að flytja þurfi eggin á nýjan stað við sjávarsíðuna á Djúpavogi.
Umræður um framtíðarskipulag í Gleðivík innan nefnda Múlaþings héldu áfram eftir áramót. Í mars samþykkti umhverfis- og framkvæmdaráð og heimastjórn Djúpavogs að leggja til við sveitarstjórn að hefja vinnu við breytingu aðalskipulags sem gerði ráð fyrri stækkun á hafnar- og athafnasvæðinu í framhaldinu af kassaverksmiðjunni. Samhliða verði unnin forhönnun á nýrri svæði.
Í bókun Péturs Heimissonar, fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í umhverfis- og framkvæmdaráðinu segir að til lengri tíma séu það hagsmunir samfélagsins á Djúpavogi að draga úr umsvifum fiskvinnslu við núverandi hafnarsvæði við Voginn og flytja inn í Gleðivík. Nauðsynlegt sé að hefja samtal þar um við hagsmunaaðila.
Þungaumferð verði beint frá Búlandi
Á íbúafundi á Djúpavogi í lok mars ræddu fulltrúar sveitarfélagsins um umferðarmál í Gleðivík og skýrðu frá því að samtal væri hafið við Vegagerðina um að bæta veginn sem liggur frá þjóðveginum niður í Gleðivík, eða leggja nýjan. Er það til að draga úr umferð flutningabíla í gegnum bæinn eftir götunni Búlandi sem liggur niður að voginum.
Skýrt var frá því að Vegagerðin hefði hafið hönnun vegarins síðasta haust og lega hans hefði áhrif á skipulagið. Þá kom einnig fram að rætt hefði verið við Vegagerðina að setja vegrið meðfram Búlandi og gera göngustíg frá Markarlandi að Gleðivík. Þeim umleitunum hefði verið vel tekið.
Skipulagið var tekið aftur til umræðu á fundi í heimastjórnar síðasta fimmtudag, tveimur dögum eftir banaslysið. Í bókun áréttar hún fyrri bókanir sínar um að deiliskipulag Gleðivíkursvæðisins verði klárað sem fyrst. Þar er minnt á að fyrsta bókun heimastjórnarinnar um málið hafi verið gerð í janúar 2021.
Vilja gangskör í öryggismálum gangandi
Á fundinum var einnig komið inn á aðbúnað gangandi vegfarenda almennt á Djúpavogi en heimastjórnin hefur ítrekað fylgt eftir erindum íbúa um úrbætur. Gagnrýni hefur lengst af beinst að Búlandi og Markarlandi, götunum sem liggja í gegnum bæinn og síðan meðfram Voginum, þar sem gangstéttir hafi verið ónýtar eða illfærar svo sem fyrir barnavagna, séu þær á annað borð til staðar. Eins vanti gangbrautir og merkingum sé ábótavant. Þá hvatti heimastjórnin til þess í vor að tækifærið yrði notað samhliða fyrirhuguðum fráveituframkvæmdum til að bæta öryggismáli.
Í bókun frá í síðustu viku kallar heimastjórnin eftir að í fjárhagsáætlun Múlaþings fyrir næsta ár verði tryggir verulegir fjármunir til úrbóta á öryggi gangandi vegfarenda á Djúpavogi. Lagt er til að fjármunum sem fást með slitum Kvennasmiðjunnar verði varið í það. Kvennasmiðjunni ehf. var slitið fyrir tveimur vikum og rennur hluti þeirra fjármuna sem eftir voru í félaginu til Múlaþings. Kvennasmiðjan var félag stofnað utan um hóp sem rak Löngubúð fyrstu árin eftir að hún var gerð upp. Byggðaráð hafði óskað eftir tillögum heimastjórnar um meðferð fjárins.