Skip to main content

Egilsstaðaflugvöllur bætir í

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. júl 2022 11:33Uppfært 07. júl 2022 16:44

Fleiri farþegar fóru um flugvöllinn á Egilsstöðum í maí heldur en áður en Covid-faraldurinn hófst. Fragtflutningar virðast vera að aukast innanlands.


Þetta kemur fram þegar skoðaðar eru flugvölur Isavia fyrir maí árin 2022, 2021 og 2019.

Eðlilegt er að talsverð viðbót sé á flugfarþegum milli þessa árs og síðasta en þegar rýnt er í tölurnar frá 2019, frá því fyrir faraldur, kemur í ljós að á meðan flugumferð um Akureyrarflugvöll er álíka mikil bæta Egilsstaðir heldur í.

Í maí nú fór 16.300 farþegar um Akureyri, sem er 48% aukning frá í fyrra en þar voru 16.360 árið 2019. Um Egilsstaði fóru 8.900 farþegar, 30% meira en í fyrra en þeir voru 7.599 árið 2019. Fjöldinn er meiri en árið 2018, þá voru þeir 8.714. Haustið 2020 tók Loftbrú, niðurgreiðslukerfi stjórnvalda á flugfargjöldum fyrir íbúa á landsbyggðinni, gildi.

Fjöldi lendinga og brottfara tók stökk á Egilsstöðum í maí, voru 349 og fjölgaði um 80% frá síðasta ári. Árin fyrir faraldur voru þau um 2019. Vegna vandræða með flugflota reyndi Icelandair, sem annast áætlunarflug innanlands, að fjölga ferðum. Á Akureyri voru þessar hreyfingar 1602 talsins nú, 23% meira en í fyrra en voru 1461 fyrir faraldur.

Fraktflutningar með flugi hafa aukist á landsvísu. Um Egilsstaðaflugvöll fóru 11,5% tonn í maí í ár sem er aukning um 13,9% frá í fyrra. Árið 2019 voru flutningarnir 10,8 tonn. Um Akureyri fóru 38,7 tonn nú, 38% meira en í fyrra. Fragtin í maí 2019 var 23,6 tonn.

Samkvæmt tölum frá Icelandair, sem birtar voru í Kauphöllinni, flutti félagið tæplega 26 þúsund farþega innanlands í maí, sem er 39% aukning frá árinu áður. Sætanýting var 80%. Í tilkynningunni fyrir maímánuð segir að það sem af er ári hafi farþegafjöldinn verði 94% af því sem hann var 2019.

Það heldur áfram, miðað við tölur fyrir júní sem félagið sendi frá sér í morgun. Farþegar í innanlandsfluginu í síðastliðnum mánuði voru 24.500, samanborið við 22.263 í fyrra. Sætanýting var 74%. Tekið er fram að þessi árangur hafi náðst þrátt fyrir raskanir vegna viðhalds véla. Í heildina var stundvísi Icelandair 67% og er það skýrt með vandamálum á flugvöllum erlendis og seinagangs við að fá varahluti. Tölur frá Isavia fyrir júní eru ekki tilbúnar.