„Eins og móðurskipið hafi kallað mig heim“

„Ég hafði enga von um það að vinna til þessara verðlauna og það var bara hálfgert sjokk,“ segir reyðfirski rithöfundurinn Inga Mekkin Beck, sem hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2016 á dögunum fyrir bókina Skóladraugurinn sem er jafnframt hennar fyrsta bók.



Bókin fjallar um Gunnvöru sem á fyrsta skóladeginum heyrir söguna um skóladrauginn – gömlu söguna sem allir krakkarnir kunna utan að og eru löngu hættir að taka mark á. En Gunnvör hlustar því það gæti nefnilega komið sér vel fyrir hana ef draugar eru til.


Gamli skólastjórinn hvati af sögunni

Inga Mekkin segir að Þóroddur Helgason, þáverandi skólastjóri í Grunnskóla Reyðarfjarðar, eigi sinn þátt í sögunni.

„Hann sagði oft í gríni að við yrðum að passa okkur á skóladraugnum, sérstaklega á bekkjarkvöldum og öðrum sambærilegum uppákonum þar sem við gistum í skólanum. Ég veit ekki hver rótin af því var, bara eitthvað sem kom uppúr honum held ég. Það var ekki bara mér sem þótti þetta áhugavert, heldur varð ákveðinn titringur í öllum hópnum – að vera í svo stóru húsi með dimmum gangi að kvöldi til, það skapaði ákveðinn ævintýraljóma.“


Áhuginn kviknaði í ME

Inga Mekkin fór ekki að skrifa af neinni alvöru fyrr en hún fór í Menntaskólann á Egilsstöðum, en þá segir hún að hún hafi áttað sig á því að áhugi hennar lá í ritstörfum.

„Auðvitað hafði ég skilað af mér ritverkefnum í grunnskóla, en það var ekki fyrr en ég fór í ME að ég fór að skrifa fyrir sjálfa mig. Ég hafði verið í tónlistarnámi allan grunnskólann og var þarna að missa áhugann á því og vantaði því vettvang fyrir mína sköpun þannig að ég snéri mér að skrifunum í staðinn. Ég horfði mikið á sjónvarp og las bækur á þessum tíma og ef ég var ekki sátt við endinn þá bara skrifaði ég nýjan. Einnig fékk ég tvisvar sinnum að skrifa sögu í stað ritgerðar hjá Sigurði Ingólfssyni kennara. Mér þótti Saga sérstaklega leiðinlegt fag og einhverntíman átti ég að skrifa sögu bílsins á Íslandi. Ég fékk ekki hátt fyrir hana en í umsögninni stóð; Þú ert góður penni en...“ Meira þurfti ég ekki að vita, að ég væri góður penni var nóg og ég var sátt.“


Bókin tileinkuð bróður Ingu Mekkínar

Eftir menntaskólann lá leið Ingu Mekkinar í Háskóla Íslands þar sem hún lauk tvöfaldri BA-gráðu; í ensku og japönsku máli og menningu árið 2012. Lokaverkefnið í ensku var nóvella, en hún var þá orðin ákveðin í að fara í MA-nám í ritlist og fannst sig vanta gott verk til að skila með umsókninni um námið.


Skóladraugurinn var hluti af meistaraverkefni hennar í ritlistinni

„Þetta byrjaði sem krot á blaði þar sem ég hripaði niður á blað hugmynd að sögu sem ég kallaði Skóladraugurinn, húsvörðurinn og ég, en þegar ég fór að vinna meira með hana varð sagan allt önnur. Mér fannst ég þurfa að skrifa um einhverskonar missi, en aðalsöguhetjan missir bróður sinn í bílslysi rétt eins og ég,“ segir Inga Mekkin, en bróðir hennar Hans Ágúst lést þegar hún var 23 ára og hann þá 25 ára.

„Þessi tenging við dauðann og missi hefur alltaf heillað mig og þessi saga snýst mikið um það og ég tileinka honum þessa bók. Hann myndi líklega kalla mig algeran vitleysing en væri á sama tíma stoltur af mér,“ segir Inga Mekkin.


Frábær stökkpallur

Inga Mekkin segir að verðlaunin séu sér mikil hvatning og nú ætli hún fulla ferð áfram í skrifunum.

„Ég var komin í hálfgert vonleysi eins og margir listamenn upplifa og ég var farin að selja mér það að ef ég næði ekki langt í þessu þá gæti ég bara hætt að reyna að verða rithöfundur. Þetta snéri svo öllu á hvolf og nú er ég farin að huga að frekari skrifum, verðlaun sem þessi eru frábær stökkpallur fyrir unga höfuda.“


Frábærar viðtökur í gamla skólanum

Bókaútgáfu fylgja tíðir upplestrar en sá upplestur sem Ingu Mekkin þykir hve vænst um er yfirstaðinn.

„Það var frábært að koma og lesa fyrir krakkana í gamla skólanum mínum, svolítið eins og móðurskipið hafi kallað mig heim. Þar eru enn kennarar sem kenndu mér, auk þess sem skólastjórinn minn mætti. Ég fékk frábærar viðtökur, krakkarnir spurðu mikið og þau fengu að kíkja í kjallarann þar sem ég sá sögusviðið fyrir mér. Þetta var alveg frábært, bara eins og að lesa heima hjá sér.“



„Það er svolítið fullorðins“

Hvernig er að fá sitt fyrsta ritverk í hendurnar? „Það er alveg stórkostlegt og mér finnst það enn svolítið óraunverulegt. Ég fékk fyrsta eintakið þegar verðlaunin voru afhent og mig langaði miklu frekar bara að klappa bókinni en að tala. Það er virkilega góð tilfinning að sjá verk sem maður skapar alveg sjálfur verða að veruleika, að erfiðið skili árangri. Á sama tíma er að örlítið ógnvekjandi því bók er svo endanleg, það er ekki hægt að breyta neinu eftir hún kemur út, það er svolítið fullorðins.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.