Ekki enn kominn dagsetning á íbúafund um sameiningu

Ekki hefur enn verið ákveðið hvenær íbúar á Vopnafirði verði boðaðir til fundar um mögulega sameiningu við önnur sveitarfélög. Oddviti segir það hins vegar vera næsta skrefið í athugun á sameiningu.

„Staðan er sú sama og við fórum með af stað í kosningabaráttuna, að halda íbúafund þar sem farið verði yfir kosti og ókosti sameiningar. Síðan verða næstu skref ákveðin,“segir Axel Örn Sveinbjörnsson, oddviti meirihluta Framsóknarflokks og óháðra í hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps. Aðspurður segir hann enga dagsetningu enn vera komna á fundinn.

Síðasta vetur var haldinn íbúafundur til að ræða mögulega stöðu Vopnafjarðar varðandi sameiningu. Þar var opnuð netkönnun til að athuga hug Vopnfirðinga til mögulegra sameiningarkosta, svo sem við Langanesbyggð, Þingeyjarsveit, Múlaþing eða Austurland. Múlaþing fékk þar flest atkvæði.

„Netkönnunin var fín en að mestu bundin við þá sem mættu á fundinn. Ef Vopnfirðingar vilja sameiningu þarf að skoða hvert við viljum fara. Hvort við viljum sameinast Langanesbyggð og vera sveitarfélag með tvö stór útgerðarfélög, hvort við viljum ræða við Múlaþing eða vera leiðandi í sameiningu fleiri sveitarfélaga.“

RR ráðgjöf aðstoðaði Vopnafjarðarhrepp á síðasta kjörtímabili við athugun á sameiningarkostum og skilaði af sér skýrslu í vikunni fyrir kosningar í vor. Farið var í vinnuna vegna breytinga sveitarstjórnalaga þar sem til stóð að innleiða skyldu um lágmarksstærð sveitarfélaga, sem Vopnafjarðarhreppur hefði ekki uppfyllt. Í stað skyldunnar voru settar auknar kvaðir á minni sveitarfélög, líkt og hreppinn, til dæmis um að leita sameiningar fyrir árið 2026.

Íbúafundurinn var hluti af þessari vinnu. Þar var meðal annars rætt um áhersluatriði Vopnfirðinga ef til sameiningar kæmi. Má þar nefna að verja grunnþjónustu á borð við skóla og hjúkrunarheimilið Sundabúð en einnig að reyna að auka við hana með fjölbreyttari atvinnu og tómstundum. Þá var lögð áhersla á að halda í vald heimafólks, með heimastjórn og áhrifum á skipulag en eins að tryggja samgöngur með áframhaldandi áætlunarflugi og helst göngum.

Við þá greiningu kom fram að mannfjöldaspá fyrir sveitarfélagið væri neikvæð þar sem íbúar þess væru að eldast. Það breytir því þó ekki að íbúum hefur fjölgað á hverju ári frá 2016.
 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.