Ekki fundust fleiri rómverskir peningar á Bragðavöllum

Fornleifafræðingar leituðu í sumar eftir frekari minjum í landi Bragðavalla í Hamarsfirði. Rómverskir peningar sem fundust þar snemma á síðustu öld eru taldir elstu munir sem fundist hafa hérlendis. Ekki fundust fleiri slíkir við athugunina núna.

„Það komu fornleifafræðingar hingað í nokkra daga og tóku fáeinar tilraunaholur. Það kom ekkert bitastætt upp úr þeim, að minnsta kosti ekki nóg til að þeir teldu ástæðu til að halda áfram að svo stöddu,“ segir Eiður Ragnarsson frá Bragðavöllum.

Alls hafa sex rómverskir peningar fundist hérlendis, þar af tveir í landi Bragðavalla. Sá fyrsti fannst í Djúpabotni árið 1905 og annar þar árið 1933. Seinni peningurinn er talinn elsti gripur sem fundist hefur á Íslandi, sleginn í borginni Cyzicus í Litlu-Asíu um 270-75 eftir Krist. Svæðið tilheyrir í dag Tyrklandi. Þriðji peningurinn frá svipuðum tíma fannst í mynni Hvaldals í Álftavirði. Hinir þrír peningarnir fundust á Suðurlandi.

Ýmsar kenningar hafa verið uppi um uppruna myntanna. Í bók sinni Kuml og haugfé veltir Kristján Eldjárn því upp hvort peningarnir hafi borist hingað frá rómversku skattlandi. Í svari á Vísindavefnum bendir Orri Vésteinsson, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands, á að peningar sem þessir séu hafi verið sjaldgæfir í norðvesturhluta Rómarveldis. Hann bætir þó við að ekkert sé fast í hendi um það umfram kenningar að Papar eða norrænir menn hafi borið myntirnar með sér síðar.

Peningarnir fundust á sínum tíma við leifar af rúst sem talin var vera frá víkingaöld. Eiður, sem alinn er upp á Bragðavöllum og hefur löngum verið áhugasamur um sögu staðarins, segist sannfærður um að þar sé löng saga um byggð þótt hún sé ekki landnámsjörð sem slík.

„Ef maður ímyndar sér hvernig Djúpibotn hefur litið út á þeim tíma sem landið byggðist þá er líklegt að það hafi verið góður staður til dvalar því fjörðurinn hafi náð inn undir gömlu brúna á Hamarsá og þarna verið skjólsæll botn við vatn. Ég er sannfærður um að það hefur verið byggð í landinu þegar Ingólfur Arnason kom hingað fyrst,“ segir Eiður en í Landnámu er grein frá því að Ingólfur hafi haft vetrarsetu að Geithellum í Álftafirði, áður en hann hélt á eftir öndvegissúlum sínum til Reykjavíkur.

Séð heim að Bragðavöllum. Mynd: VisitAusturland

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.