Ekki tilefni til aðgerða þótt talsverðri úrkomu sé spáð næstu daga

Sérfræðingar á ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands telja ekki ástæðu til aðgerða þótt spáð sé mikilli rigningu á Seyðisfirði í nótt og áfram næstu daga. Úrkoman er enn aðeins brot af því sem hún var í aðdraganda skriðufallanna í desember 2020.

Þetta kom fram á upplýsingafundi sem haldinn var fyrir Seyðfirðinga í dag. Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþing sagði í upphafi fundar að stefnan væri að halda upplýsingafundi á haustin til að fara yfir stöðuna á fjallshlíðunum og mælitækjum.

Uppsöfnuð úrkoma á Seyðisfirði, samkvæmt úrkomumæli í bænum, er orðin um 200 mm. í nóvember. Hún er um 50 mm. meiri í Vestdal og Neðri-Botnum. Þorri úrkomunnar féll í síðustu viku og enn bættist við í gærkvöldi.

Áfram er útlit fyrir hraustlega rigningu, þannig er spáð 30 mm. í nótt, mest milli klukkan 3 og 6. Um klukkan níu í fyrramálið á að verða þurrt og haldast þannig fram á fimmtudag. Á föstudag og sunnudag er aftur spáð úrhelli, um 40 mm. hvorn dag en stytta á upp á laugardag.

Rigning er áfram í spám í byrjun næstu viku. Óvissan er þó orðin mikil í spánum þegar komið er svo langt fram í tímann, annars vegar almennt, hins vegar eru skammtímaspárnar mun nákvæmari upp á hve mikið fellur og nákvæmlega hvar.

Hjörtur Magni Jónsson frá Veðurstofunni sagði að áfram væri líkur á austlægum áttum og hlýindum til mánaðamóta. Það þýddi ekki úrkomu en hlýindin gerðu það að verkum að úrkoma á þessum tíma yrði líklega rigning.

Ekki útlit fyrir að rigningin nái því sem var fyrir skriðuföllin

Þrátt fyrir þessa miklu rigningu er ekki talin ástæða til aðgerða á Seyðisfirði vegna skriðuhættu. Úrkoman er enn aðeins brot af því sem hún var í aðdraganda skriðufallanna 2020. Þá mældust hún 733 mm. þann 9. – 18. desember, þar af 569 mm. 14. – 18. desember. Þá bættust við leysingar. „Við eigum langt í land með að ná því og ekki útlit miðað við spárnar,“ sagði Magni Hreinn.

Lítilsháttar hreyfingar mældust á hrygg við Búðará í lok síðustu viku. Ekki hefur mælst meira skrið síðan á laugardag. Vatnsstaða í borholum er orðin nokkuð há, hún lækkaði aðeins í gær en hækkaði á ný í dag eftir rigningarnar í gær.

Magni Hreinn og Björn brýndu fyrir íbúum að þótt ekki væri talin hætta á ferðum væri gott fyrir íbúa að fara yfir rýmingarkort, sem borin voru í hús í fyrra, til að vera með hlutina á hreinu ef þeir kæmust á annað stig. Rýmingaráætlun var yfirfarin á fundi Veðurstofu og almannavarna í gær.

Ákveðið hefur verið að auka upplýsingagjöf. Á vef Veðurstofunnar mun hvern dag fyrir hádegi birtast frétt sem inniheldur nýjustu upplýsingar, veðurspá, stöðu í borholu og mat á aðstæðum. Gerð verður grein fyrir því sem þar kemur fram eftir föngum hér á Austurfrétt.

Einnig fylgst með á Eskfirði

Veðurstofan fylgist einnig með stöðunni á Eskfirði. Þar hafa 93 mm. skilað sér í úrkomumæli í bænum síðasta sólarhringinn en minna er talið hafa rignt utar í firðinum. Þar er einnig búist við um 30 mm úrkomu í nótt.

Þar er eru einnig vaktaðir vatnshæðarmælar í tveimur borholum. Önnur er ofarlega í Kolabotnum en hin í beygju á Oddsskarðsvegi þar sem hreyfingar sáust í desember 2020. Lítil reynsla er enn komin á túlkun gagna úr þeim en vatnið virðist hafa hækkað í Kolabotnum og er þar svipað og eftir rigningar í byrjun október. Lítil hækkun sést enn á neðri holuni. Eins eru komnir tveir aflögunarmælar, annar í beygjunn en hinn utarlega í Kolabotnum ofan við byggðina. Heildarfærsla þeirra síðustu daga er um 5 mm. sem telst óverulegt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.