Eldiviðarkubbar úr Fljótsdal kynda dönsk heimili
Útflutningur á timbri frá Fljótsdal og Eskifirði á erlenda markaði virðist innan seilingar. Miklar verðhækkanir á timbri á Evrópumarkaðinum hafa valdið því að erlend fyrirtæki hafa sett sig í samband við íslenska timburframleiðendur. Fyrsti farmurinn af eldiviðarkubbum fer til Danmerkur á næstunni,
Þetta kemur fram á vefsíðu Bændablaðsins. Þar er rætt við m.a. Bjarka Jónsson hjá Skógarafurðum í Fljótsdal og Einar Birgir Kristjánsson hjá Tandrabrettum á Eskifirð. Um er að ræða útflutning á annars vegar eldiviðarkubbum úr timbri ræktuðu í Fljótsdal og hins vegar endurunnið timbur í formi spónaköggla frá Eskifirði
Í samtali Bjarka við Bændablaðið kemur fram að danskur heildsali hafi sett sig í samband við Skógarafurðir og óskaði hann eftir að kaupa allt að 400 rúmmetra af eldiviði í vetur. Mun fyrsta sendingin fara utan með Norrænu til Danmerkur í næsta mánuði.
„Við erum að pína okkur svolítið niður í verði til að geta þetta, en þetta eru heilu flutningavagnarnir sem fara í einni lotu,“ segir Bjarki. Og bætir við að þótt að íslenskir neytendur borgi hærra verð fyrir sömu vöru, þá sé þetta svo mikið magn sem fer í einu að viðskiptin borga sig.
Bjarki segir að eldiviðarverð í Danmörku hafi fimmfaldast frá upphafi Úkraníustríðsins og allt stefnir í frekari hækkanir.
Einar Birgir Kristjánsson hjá Tandrabrettum á Eskifirði, sem framleiðir undir vörumerkinu Ilmur, segist hafa orðið var við þrýsting erlendis frá. Hinsvegar liggi framleiðslan hjá þeim niðri þar sem verið er að stækka verksmiðjuna. Hann vill því ekki fullyrða neitt um stöðu mála fyrr en framleiðslan fer aftur í gang, en áhuginn erlendis frá á spónakögglum til orkuframleiðslu er sannarlega til staðar, að því er segir í Bændablaðinu.
Við þetta má bæta að Einar Birgir segir í færslu á Facebook síðu Austurfréttar að það hafi þegar farið prufusending af Ilmur viðarperlum til Danmerkur og fyrir liggur pöntun á meiru.
Mynd: Bjarki Jónsson einn af eigendum Skógarafurða.