Skip to main content

Enginn þegið sálræna aðstoð vegna ofsaveðursins um síðustu helgi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. sep 2022 15:01Uppfært 29. sep 2022 16:32

„Enn sem komið er hefur enginn haft samband við mig hér en þó er ekki útilokað að aðrir hjá okkur hafi fengið eitthvað á sitt borð,“ segir Jónína Óskarsdóttir, fagstjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA.)

Í kjölfar ofsaveðursins sem gekk yfir austanvert landið um helgina kynnti stofnunin sérstaklega sálræna aðstoð og hjálp til handa þeim er fundu sig óörugga eða glímdu við erfiðar tilfinningar vegna veðurofsans og þeirra skemmda sem urðu víða í fjórðungnum.

Fólki bauðst fólki annars vegar að hafa samband í hjálparsíma Rauða krossins 1717 ellegar í Jónínu sjálfa á opnunartíma HSA ef á þyrfti að halda.

„Það hefur enginn óskað viðtals enn sem komið er sem kemur vissulega á óvart því slíkir atburðir geta sett fólk út af laginu og þá er oft hjálp í að vita að það þurfi aðeins eitt símtal. Það var til dæmis raunin í skriðuföllunum á Seyðisfirði en slíkar hamfarir geta eðlilega komið fólki í mikið uppnám og vakið ótta. Þetta er fyrst og fremst í boði til að fólk upplifi sig ekki eitt í heiminum þegar svo ber undir.“