F-vegur takmarkar komur ferðamanna í Sænautasel
„Það hefur verið dálítið áberandi hvað erlendum ferðamönnum er að fækka og eftir því sem ég kemst næst helgast það af hertum reglum bílaleiga um ferðir á þessum F-vegum sem Vegagerðin kallar svo,“ segir Lilja Óladóttir, umsjónarmaður á heiðarbýlinu Sænautaseli.
Lilja hefur um langa hríð séð um rekstur þessa merkilega fyrrum heiðabýlis sem ýmsir vilja meina að sé fyrirmyndin að einni frægustu bók Íslandssögunnar: Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness. Er Sænautasel þess utan eina heiðarbýlið af mörgum á þessum slóðum sem enn stendur og um margt merkilegt þangað að koma fyrir gesti.
Fáein ár eru síðan flestar bílaleigur landsins hófu að takmarka eða jafnvel banna alfarið akstur venjulegra bifreiða sinna á svokölluðum F-vegum en sú flokkun stendur fyrir fjallvegi. Ætli fólk á slíka vegi þarf annaðhvort mun dýrari bíl og stærri ellegar kaupa sérstaka tryggingu fyrirfram hjá þeim sem enn leyfa akstur á slíkum vegum.
Lilja segir vandamálið þó það að spottinn frá gamla þjóðveginum að Sænautaseli sé enginn fjallvegur í þeirri merkingu sem flestir ganga út frá. Þvert á móti sé slóðinn að selinu engu verri, eftir að opnað hefur verið, en aðrir malarvegir í landinu og engin sérstök hætta á skemmdum á bifreiðum þeim sem um aka.
Sænautasel í sumarblíðu. Töluverð umferð fólks er jafnan að þessu merka heiðarbýli yfir sumartímann en flokkun Vegagerðarinnar á veginum að selinu hefur takmarkað komur erlendra ferðamanna á bílaleigubílum.