Skip to main content

Fagna 40 ára afmæli Smyril Line

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. nóv 2022 10:46Uppfært 09. nóv 2022 11:11

Færeyska skipafélagið Smyril-Line, sem gerir út Norrænu sem siglir til Seyðisfjarðar, fagnar um þessar mundur 40 ára afmæli sínu.


Formlegt stofnár félagsins er 1982 þótt sagan um stofnunina teygi sig yfir lengra tímabil. Farþega- og bílaferjan Smyrill tók að sigla milli Seyðisfjarðar og annarra Norðurlanda árið 1975. Það voru yfirmenn á henni sem höfðu frumkvæði að stofnun nýja félagsins til að kaupa nýja ferju, sænsku ferjuna Gustav Vasa.

Hún tók um 1000 farþega í stað 250 áður og fékk nafnið Norræna. Hún kom í fyrsta sinn til hafnar á Seyðisfirði 8. júní 1983 en stækka varð höfnina og aðstöðuna til að taka við henni.

Austfirðingar tóku þátt í stofnun félagsins og kaupa á ferjunni og áttu 4% hlutafjár Smyril-Line þegar siglingar Norrænu hófust. Sveitarfélögin á Seyðisfirði og Egilsstöðum áttu hlutafé auk einstaklinga. Jónas Hallgrímsson, sem þá var bæjarstjóri á Seyðisfirði og lengi eftir það lykilmaður innan Smyril-Line, tók við hlutafjárloforðum.

Reksturinn hefur farið í ýmsa hringi síðan og nýja félagið var ekki orðið margra ára þegar færeyska landsstjórnin lagði því í fyrsta sinn til nýtt hlutafjár. Hún á í dag tæplega fjórðungshlut en stærsti eigandinn, P/F 12.11.11 á tæp 60%. Aðrir minni hluthafar eiga 18%.

Reksturinn hefur bætt við sig. Auk Norrænu rekur Smyril-Line fimm flutningaskip sem sigla þrjár mismunandi leiðir. Tvær þeirra koma við í Þorlákshöfn. Félagið er einn stærsti atvinnurekandi Færeyja, rekur nokkrar ferðaskrifstofur auk þess að eiga Hotel Hafnia í Þórshöfn.