Fannst stúdentsprófið vera ómerkilegur pappír

Hafliði Hinriksson lætur senn af starfi sem skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands. Hann fer þó ekki langt og heldur áfram að kenna vélstjórn við skólann. Hann setti snemma stefnuna á þá iðngrein.

„Ég hef alla tíð haft áhuga á iðngreinum og þá sérstaklega vélstjóranum. Ég var nú ekki hár í loftinu, minnir mig, þegar ég tjáði mig um að vilja verða vélstjóri.

Afi minn var vélstjóri og móðurbróðir minn líka og ég hafði nasaþef af starfinu því ég var mikið með afa á yngri árum. Ég ætlaði alltaf og langaði á sjóinn og ég prófaði alveg að fara á sjó um tíma. Það var aldrei auðveldasta starfið en mér fannst þetta skemmtilegt þá.

Svo fannst mér ég þurfa að standa við stóru orðin þegar ég þurfti svo að ákveða hvað ég vildi gera á unglingsárunum. Úr varð að ég dreif mig norður í Verkmenntaskólann á Akureyri, kláraði þar vélstjórnina og bætti svo við mig rafvirkjun líka því það þurfti ekki mikið að bæta við til að taka þá menntun með,“ segir Hafliði í viðtali við Austurglugga vikunnar.

Í VMA tilheyrði Hafliði fyrsta hópnum sem skólinn útskrifaði sem stúdenta samhliða vélstjórnarnáminu án viðbótar. Þar af leiðandi var hann orðinn stúdent, vélstjóri og rafvirki þegar hann útskrifaðist frá VMA. Hann bætti síðar við sig prófi í rafiðnfræði við Háskólann í Reykjavík og loks kennslufræðum við Háskóla Íslands.

„Það var nú reyndar dálítið fyndið að ég ákvað með sjálfum mér snemma að ætla aldrei að klára stúdentspróf. Það fannst mér einhvern veginn mjög ómerkilegur pappír. Sem það er auðvitað ekki en þetta fannst mér á þessum tíma og taldi vélstjóranámið kappnóg fyrir mig.“

Hafliði varð skólameistari fyrir um ári síðan en lætur af störfum á næstunni og færir sig aftur í hina daglegu kennslu. „Mér finnst gaman að vinna með unga fólkinu og sem skólameistari fer maður aðeins á mis við þá upplifun. Þess sakna ég en ég geri þetta líka því starfsálag er aðeins meira í þessu en venjulegu kennarastarfi og það er margt annað sem mig langar að sýsla utan vinnutíma. Þess vegna tók ég þessa ákvörðun.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.