Skip to main content

Fara fram á nánari útreikninga á bakvið 9,9 MW afl Geitdalsárvirkjunar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. okt 2022 09:30Uppfært 11. okt 2022 09:33

Skipulagsstofnun tekur undir athugasemdir við áætlun um mat á umhverfisáhrifum Geitdalsárvirkjunar í Skriðdal sem snúa að því hvernig 9,9 MW uppsett afl virkjunarinnar er fengið út. Kallað er eftir að strax verði kannaðir möguleikar aukinnar framleiðslugetu.


Athugasemdir um þetta kom frá bæði Orkustofnun og Múlaþingi. Orkustofnun segir að í matsáætlun virkjunaraðila hafi ekki legið fyrir forsendur um hvernig það rennsli sem reiknað er með að virkjað verði leiði til 9,9 MW virkjunar. Stofnunin spyr hvort þörf sé á allri fyrirhugaðri vatnsmiðlun, svo sem úr Miðá og þverá Leirudalsár en einnig hvaða tækjabúnaður verði notaður við framleiðsluna. Múlaþing vill að möguleg stækkun verði metin samhliða umhverfismatinu nú.

Undir þetta tekur Skipulagsstofnun sem telur brýnt að fá sem fyrst úr því skorið hvort 9,9 MW sé endanleg stærð. Virkjunaraðilinn heitir því að nánar verði gerð grein fyrir útreikningunum í mati á umhverfisáhrifum.

Við mörk rammaáætlunar

Þarna er um að ræða nokkuð mikilvægt atriði við gerð virkjunarinnar. Virkjanir sem framleiða innan við 10 MW eru flokkaðar sem smávirkjanir. Þær falla því utan við rammaáætlun og þar með samþykki Alþingis. Þær geta einnig verið undanþegnar umhverfismati. Að þessu sinni hefur það alltaf staðið til og er matsáætlunin undanfari matsins sjálfs.

Í síðustu viku var Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro sem stendur að baki virkjuninni, spurður í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV hvort Geitdalsárvirkjun væri stillt af í 9,9 MW til að komast hjá rammaáætlun. „Eigum við ekki að segja sem svo að við séum að fikra okkur upp í efri mörkin til þess að geta farið þangað,“ og bætti við að í ljós ætti eftir að koma hvort hún yrði 8 eða 9 MW. Hann sagði virkjunaraðila leita að minni kostum þar sem afgreiðsla rammaáætlunar tæki mörg ár og þar af leiðandi virkaði hún því miður ekki sem skyldi.

Lón í rúmlega 700 metra hæð

Arctic Hydro er þessa dagana að ljúka gerð Þverárvirkjunar í Vopnafirði. Það er framkvæmdaaðili Geitdalsárvirkjunar í gegnum Geitdalsárvirkjun ehf. Byggja á 1 km langa og 18 metra háa stíflu í rúmlega 700 metra hæð í Leirudal sem myndar 3 ferkílómetra lón. Mun minna inntakslón verður í 450 metra hæð á bakvið 32 metra háa og 300 metra langa stíflu. Þaðan verður vatnið leitt 6,6 km leið í gegnum þrýstipípu. Við framkvæmdina þarf meðal annars að leggja 23 km langan veg upp að miðlunarlóninu.

Í matsáætluninni gerir framkvæmdaaðilinn grein fyrir þeim atriðum sem hann hyggst skoða í umhverfismatsskýrslunni sjálfri. Áætlunin lá fyrir í febrúar en í vor gafst fagstofnunum og almenningi kostur á að gera athugasemdir við hana. Skipulagsstofnun hefur nú farið yfir þær athugasemdir og fengið svör frá Arctic Hydro um hvernig verði fjallað betur um þau atriði sem athugasemdir eru við.

Raskar óbyggðum víðernum

Þannig biðja til dæmis Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun um að nánari grein verði gerð fyrir árstíðasveiflum í framleiðslunni, svo sem áhrifum á gróður þegar hækkar og lækkar í lónunum enda séu þau í yfir 700 metra hæð þar sem gróður sé viðkvæmur.

Margar athugasemdir bárust við skerðingu sem virkjunin veldur á óbyggðum víðernum, sem í matsáætluninni átti að fjalla um í matinu um leið og aðra ásýnd. Umhverfisstofnun tekur undir að fjalla verði um skerðinguna með nýjustu aðferðum svo sem frá Wildlife Research Institute og Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Höfn. Arctic Hydro tekur í sínum athugasemdum fram að því sé kunnugt um aðferðafræði fyrrnefndu stofnunarinnar og muni taka tillit til þessa.

Nokkrar umsagnir snúa að samfélagslegum áhrifum, til dæmis benda íbúar í Skriðdal á að Kárahnjúkavirkjun hafi skapað harðvítugar deilur og sár í samfélaginu sem vart séu enn gróin. Í svari framkvæmdaaðila segir að ekki sé lagt mat á hvað gerst hafi fyrir 20 árum en hæpið sé að bera virkjanirnar tvær saman. Að auki lýsa íbúarnir efasemdum um að þörf sé á þessari viðbótar raforkuframleiðslu á Austurlandi.

Athugasemdirnar snúa einnig að bæði búskap og möguleikum til útivistar. Skipulagsstofnun bendir á að óhjákvæmilega breyti virkjunin svæði sem í dag beri lítil merki mannlegra athafna. Því þurfi að huga vandalega að öllum þessum þáttum, til dæmis með að kanna hug bæði ferða- og heimafólks til framkvæmdanna.

Farið fram á mat á losun frá lónsstæðunum

Heilt yfir virðist Arctic Hydro vera tilbúið til að gera betri grein fyrir þeim atriðum sem athugasemdirnar beinast að í umhverfismatinu. Helst er það aðfinnslur Hafrannsóknastofnunar sem fyrirtækið telur ósanngjarnar.

Stofnunin gagnrýnir að áform um sýnatökur vegna vatnalífs séu óljós og að kanna þurfi vatnasviðið sem verði fyrir áhrifum í heild, það er ekki bara Geitdalsá og Leirudalsá heldur líka í Grímsá. Hafrannsóknastofnun telur þessar kröfur ná of langt, slíks hafi ekki verið krafist við rannsóknir vegna Þverárvirkjunar sem þó fellur í Hofsá, eina helstu laxveiðiá landsins.

Stofnunin fer einnig fram á að reiknað verði út losun gróðurhúsaloftegunda af því svæði sem fari undir lónin því þar fari af stað rotnun sem valdi losun. Virkjunaraðilinn segir að slíkar kröfur hafi ekki áður verið gerðar til virkjana hérlendis og muni litlu bæta við en Skipulagsstofnun er á öðru máli og segir fulla ástæðu til að reikna þetta út.

Allnokkrar athugasemdir bárust við orðalag í matsskýrslunni um að ekki séu friðlýst eða vernduð svæði á virkjunarsvæðinu en þar sagði að skoðað yrði með jarðmyndanir eða vistgerðir sem njóti sérstakrar verndar. Náttúrufræðistofnun bendir á að svæðinu séu fossar, vötn og votlendi sem njóti verndar og nánar þurfi að fjalla um. Einnig þurfi að kanna áhrif á náttúruverndarsvæði í nágrenninu svo sem Þingmúla, Skriðuvatn, Geitdalsgriðland og Haugahóla.

Samkvæmt tímaáætlun í matsáætluninni ráðgerði Arctic Hydro að leggja fram umhverfismatið nú í október, almenningi gæfist frestur fram í nóvember til athugasemda og endanlegt álit Skipulagsstofnunar lægi fyrir öðru hvoru megin áramóta.

Af áhrifasvæði Geitdalsárvirkjunar. Mynd: Skarphéðinn Þórisson