„Fengum himnasendingu í morgun“

Stjórnarformaður eins stærsta ferðaþjónustufyrirtækis Austurlands lýsir væntanlegu beinu flugi þýska flugfélagsins Condors milli Egilsstaða og Frankfurt næsta sumar sem stórtíðindum fyrir framtíð ferðaþjónustu á Austurlandi. Löngu sé kominn tími á frekari dreifingu ferðafólks um landið sem sé forsendan fyrir áframhaldandi vexti greinarinnar.

„Mín fyrstu viðbrögð eru að þetta séu dásamleg tíðindi fyrir okkur. Þetta sem gerðist í morgun er ofboðslega stórt fyrir framtíðina,“ segir Þráinn Lárusson, stjórnarformaður og eigandi 701 Hotels, sem rekur bæði Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum og Hótel Hallormsstað, en hið síðarnefnda er það stærsta á Austurlandi.

Þráinn situr einnig sem fulltrúi ferðaþjónustunnar í stjórn Austurbrúar og hefur sem slíkur getað fylgst með aðdraganda flugs Condor. „Þetta er afrakstur mikillar vinnu, bæði stjórnar og starfsfólks Austurbrúar. Ég segi að við eigum þetta að mestu.“

Eykur lífgæði og skapar atvinnutækifæri

Condor, þriðja stærsta flugfélag Þýskalands, hóf í morgun sölu miða í flug frá Frankfurt til annars vegar Egilsstaða, hins vegar Akureyrar. Flogið verður vikulega á hvorn stað frá miðjum maí fram í lok október. Þráinn, sem alinn er upp á Akureyri og bjó þar lengi, segir flugið bæta lífsgæði íbúa og auka möguleika fyrirtækja á bæði Austur- og Norðurlandi.

„Ég held að fólk átti sig kannski ekki strax á hversu þýðingarmikið þetta er fyrir lífsgæði okkar Austfirðinga og Norðlendinga. Þetta snýst ekki bara um að fá ferðafólk hingað heldur galopnar tækifæri fyrir okkur til að ferðast út um heiminn. Frankfurt er einn stærsti flugvöllur Evrópu og það verður lítið dýrara fyrir okkur að fljúga þangað en til Reykjavíkur.

Mikilvægið fyrir ferðaþjónustuna er margþætt. Ég held að vikulegt flug sé aðeins byrjunin, ég vænti þess að Condor fjölgi ferðum. Ég á ekki endilega von á að það verði yfir vetrarmánuðina, mín reynsla er að Þjóðverjar séu ekki fjölmennir hér á tímabilinu frá nóvember fram í febrúar, heldur hef ég trú á að félagið fari fleiri ferðir í hverri viku.

Þetta styrkir Norður- og Austurland sem áfangastað. Flestir ferðamenn fara ekki lengra en 150 km frá flugvelli, óháð því hvar þeir eru í heiminum, þannig að til þessa höfum við ekki verið inni í dagskrá þeirra ferðamanna sem koma til Íslands í 3-4 daga. Það er þó stærsti hópurinn. Nú geta Þjóðverjar sem koma hingað í slíkar ferðir komið beint og það nýtist stórum ferðaskrifstofum sem við höfum verið í tengslum við.

Þetta opnar á tengiflug. Frá Frankfurt er flogið til um 300 áfangastaða, það þýðir að 300 borgir fá aðgang að okkur. Við getum hugsað okkur Ítala sem áður þurfti stóran hluta ársins að taka tvö flug til að komast til Íslands og síðan þriðja flugið til að komast austur. Nú getur hann komist til okkar í tveimur flugum.“

Nauðsynlegt að dreifa ferðamönnum betur

Þráinn spáir því að beina flugið muni upphefja Austurland sem ferðamannastað og þrýsta á stjórnvöld bæði þar sem á landsvísu að beita sér fyrir því að ferðaþjónustan geti áfram vaxið. „Svæðið milli Egilsstaða og Akureyrar var áður eitt það vinsælasta á landinu. Mývatn var einn fjölsóttasti staður landsins en er ekki lengur meðal þeirra tíu vinsælustu. Staðir sem þá voru vart á kortinu hafa tekið yfir. Ég held að það geti nú aftur breyst til baka.

Ég hef lengi viljað skipta Íslandi upp í tvö markaðssvæði, annars vegar sunnanvert landið, hins vegar norðan- og austanvert. Síðan væri fjármagni í markaðssetningu skipt eftir því. Meðan allt flýtur í markaðspeningum á Suðurlandi höfum við þurft að berjast fyrir hverri krónu, eins og afétinn ungi í hreiðri.

Til að Ísland geti vaxið og stækkað sem ferðamannaland verður að dreifa ferðamönnunum betur. Við höfum staðið okkur hræðilega í því. Ég hef árum saman bent þeim sem stjórna dreifingu ferðafólks, einkum yfir vetrartímann, á þetta og að til þess þyrfti beint flug á jaðarsvæðin.

Ísland er enn örland í ferðaþjónustunni. Hingað í vikunni kom til mín pólskur lögfræðingur, sem var fyrsti starfsmaðurinn minn þegar ég var að byrja í ferðaþjónustunni árið 2006. Hann býr í Kraká og þangað koma níu milljónir ferðamanna árlega. Við fáum til okkar tvær milljónir árlega en ég held við gætum leikandi fimmfaldað þann fjölda en við verðum að dreifa þeim. Við tölum um að Þjóðverjar séu fjölmennir hér en þar fara 40 milljónir í ferðalög ár hvert sem þýðir að við erum öreind á markaðinum.“

Austurland orðið flöskuháls íslenskrar ferðaþjónustu

Condor áformar flug yfir sumarmánuðina, þegar mest er af öðru ferðafólki á Austurlandi. Nýting á þessum mánuðum er orðin góð sem vekur spurningar um hvar fólkið sem kemur með fluginu eigi höfði sínu að halla. Þráinn segir að þetta sé vandamál sem sé ekki bara Austfirðinga að leysa.

„Þetta er spurningin um hvort kemur á undan hænan eða eggið. Við vitum að í rúma tvo mánuði á ári er ekki auðvelt að fá gistingu á Egilsstöðum eða Akureyri því hvort sem fólk trúir því eða ekki eru fleiri hótelherergi á Fljótsdalshéraði en Akureyri.

Það byggir hins vegar enginn hótelherbergi á þessum stöðum því reikningsdæmið gengur ekki upp. Fjárfestingin er mikil en nýtingin yfir árið ekki næg. Þörfin er í 8-10 vikur á ári og hún stendur ekki undir kostnaði.

Ísland er orðið uppselt yfir sumarið og þar er Austurland flöskuhálsinn. Ferðamenn sem vilja fara hringinn komast ekki í gegnum Austurland. Það sem hefur gerst er að við fáum gesti sem stoppa við lengur en áður, í tvær nætur.

Fyrir fimm árum var hjá mér eigandi stórrar þýskrar ferðaskrifstofu sem sagði að Egilsstaðir væru bara til að keyra í gegnum en síðan hefur bærinn byggst upp sem ágætis staður til að heimsækja með fínum veitingastöðum, Vök baths, Stuðlagili og fleiru.

Sumir halda að ferðafólk komi alltaf þótt ekkert sé gert, Akureyringar trúðu því lengi. Það kemur en stoppar stutt. Við hér eystra höfðum lengi þann vafasama heiður að vera með stystan dvalartíma ferðafólk hérlendis, hann hefur lengst og mun lengjast enn frekar en þá byrjar herbergjaskorturinn.

Þess vegna spyr ég hvað yfirvöld ætla að gera því meðan ferðafólki dreifist ekki meira eru ekki forsendur til fjárfestinga. Hver er stefnan? Hvað hefur sveitarfélagið til dæmis gert? Hvernig hefur það beitt sér fyrir dreifingu ferðafólks? Ég segi ekki að það eigi að leggja til beina styrki en það heldur utan um hlutina, getur greitt götur fyrirtækja og liðkað fyrir samskiptum.

Það eru einstaklingar sem hafa haldið upp og byggt upp ferðaþjónustuna hér á Austurlandi og eiga þakkir skyldar fyrir það. Við höfum stundum þurft að berjast við aðilana fyrir sunnan og þá sem fara með ferðamálin í landinu. Við höfum ekki alltaf áunnið okkur vinsældir með því.“

Samfélagið þarf að standa saman til að dæmið gangi upp

Nokkrum sinnum áður hefur beint flug verið reynt til Egilsstaða, síðast árið 2016 þegar breska ferðaskrifstofan Discover the World leigði vélar sem flugu beint milli Egilsstaða og Lundúna. Það flug stóð ekki undir væntingum. Þráinn segir að forsendurnar nú séu aðrar. „Það var leiguflug einnar skrifstofu, þetta er áætlunar flug á opnum markaði. Fólk ferðast líka öðruvísi en áður. Áður fyrr hringdi fólk í ferðaskrifstofurnar, pantaði flug með rútuferðum milli flugvallar og hótela.

Ég varaði við því þegar Discover the World hóf sitt flug að það myndi aldrei ganga upp og gæti fært okkur aftur um marga reiti. Það gerðist þegar eigandi skrifstofunnar kom í fjölmiðla og sagði að Austurland væri ekki tilbúið.“

Þráinn vonast til að flug Condor auki tiltrú á Austurlandi og vilja fjárfesta til að styðja svæðið, þótt það gerist ekki endilega strax. „Ég er viss um að fjármálastofnanir haldi að sér höndum fyrst í stað til að sjá hvað gerist. Við höfum séð tilraunaverkefni, bæði hér og á Akureyri, sem enduðu illa. Fjárfestar draga því ekki upp veskið strax, sem getur verið vandamál því ef við fylgjum þessu ekki eftir með uppbyggingu þá erum við í vondum málum.

Það eru mikil tækifæri í flugi Condor. Egilsstaðabúar allir verða að átta sig á að ef við ætlum að taka þessa himnasendingu, sem við fengum í morgun, og nýta til góðs þá verðum við að taka höndum saman um að byggja hér upp áhugavert samfélag.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.