Fjarðabyggð veitir aðstoð við hreinsun eftir storminn

Sveitarfélagið Fjarðabyggð veitir íbúum aðstoð við tiltekt eftir storminn sem gekk yfir Austfirði á sunnudag og mánudag. Viðbúið er að hreinsun taki jafnvel vikur.

Eins og Austurfrétt hefur greint frá eru víða fallin tré í görðum ásamt öðru braki eftir óveðrið. Hreinsunarstarf hófst strax í gær og býður sveitarfélagið íbúum upp á aðstoð. Tekið er á móti beiðnum í gegnum ábendingakerfi sveitarfélagsins.

Í frétt Fjarðabyggðar segir að verkefnið sé stórt og tiltektin muni taka einhverja daga eða vikur. Margar ábendingar hafa þegar borist. Forgangsraða þarf verkefnum en reynt að láta þau ganga eins hratt og kostur er. Fram kemur að aðstoð sem íbúar geta veitt, ýmist með að búta niður tré eða greiða aðgengi að þeim flýti fyrir.

Þegar Austurfrétt fór um Reyðarfjörð í gær mátti víða heyra keðjusaganið eða fólk á ferðinni í görðum að hefja tiltektina.

Í bókun bæjarráðs Fjarðabyggðar frá því á mánudag segir að íbúar hafi brugðist vel við yfirvofandi hættu, tryggt lausamuni og þar með minnkað talsvert það tjón sem hefði getað orðið. Íbúum, björgunarsveitum, starfsmönnum sveitarfélagsins og öðrum eru færðar sérstakar þakkir fyrir að bjarga verðmætum og forða frekari eignaspjöllum.

„Atburðir eins og þeir sem hér áttu sér stað minna okkur einnig á mikilvægi þess fórnfúsa starfs sem björgunarsveitirnar okkar vinna. Þar erum við íbúar Fjarðabyggðar heppnir að búa að öflugum sveitum í öllum byggðakjörnum sem svo sannarlega sýndu úr hverju þær eru gerðar á sunnudag og í gær. Fjöldi verkefna sem þær sinntu voru vel á annað hundrað og ég er sannfærður um að án snarræðis þeirra hefði tjónið orðið mun meira,“ segir í pistli sem bæjarstjórinn Jón Björn Hákonarson birti á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.

Sjálfur var hann fjarverandi þegar veðrið gekk yfir, hafði verið meðal fulltrúa Fjarðabyggðar á Íslandsdögum í vinabænum Gravelines í Frakklandi og kom austur í gærmorgunn. „Það gefur augaleið að þarna hafa miklir kraftar verið á ferð, og veður sem við þurfum sem betur fer ekki oft að takast á við.“

Jón Björn segir góðar kveðjur hafa borist víða að og gott sé að finna samhuginn í kjölfar atburðanna. Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, kom austur með þyrlu Landhelgisgæslunnar strax á mánudagskvöld, fundaði með hópi bæjarfulltrúa, skoðaði aðstæður og hitti fulltrúa viðbragðsaðila. Þá greinir Jón Björn frá því að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hafi haft samband á mánudag, beðið fyrir góðri kveðju til íbúa Fjarðabyggðar og boðað komu sína í næstu viku til að skoða aðstæður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.