Fleiri austfirskir bjórar í Vínbúðina
„Vandamálið hefur nú aðallega verið hvað salan hefur gengið vel þannig að við áttum í raun ekkert aukalega fyrr en núna,“ segir Atli Þór Ægisson, hjá brugghúsi Beljanda á Breiðdalsvík.
Stór stund rann upp í gærdag þegar Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) hóf sölu á jólabjórnum Fönn frá Beljanda og geta bjórunnendur um land allt tekið gleði sína því sala á bjór Beljanda hefur gengið svo vel frá stofnun að hann hefur nánast alls ekki fengist utan Austurlands.
Atli segir að aðeins sé tæpt ár síðan að þeir fengu dósavél en það var of seint þá til að koma bjórnum í verslanir vínbúðanna. Svo hafi salan í sumar á kútum gengið svo vel að lítið hefur verið aukreitis til að tappa á dósir.
„Við höfðum nánast ekki undan í sumar og makalaust hvað selst hefur af honum þó hann fáist eingöngu hjá okkur og á stöku hótelum og börum hér fyrir austan. Nú erum við reyndar að búa í haginn og fá til okkar tvo nýja tanka þannig að við getum aukið framleiðsluna umtalsvert í kjölfarið. Hvort það dugar til að sinna eftirspurninni kemur svo í ljós.“
Atli lýsir Fönn jólabjór sem hefðbundnum jólalagerbjór með keim af lakkrís í og með. Mynd Beljandi.