Skip to main content

Fljótsdælingar vilja kynna sér vindmyllugarða á Spáni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. ágú 2022 09:28Uppfært 19. ágú 2022 18:10

„Þarna er einungis um það að ræða að þeir landeigendur sem eiga hagsmuna að gæta varðandi vindorkugarð vilja vita meira um verkefnið. Fyrirtækið sem við eigum í viðræðum við rekur þar tiltölulega nýjan og fullkominn vindorkugarð og þess vegna er Spánn á dagskránni,“ segir Helgi Gíslason, sveitarstjóri í Fljótsdal.

Milli tíu og tólf landeigendur í Fljótsdal hafa farið þess á leit við sveitarstjórn að koma að sérstakri kynningarferð sem fara á til Spánar innan tíðar. Þar hugmyndin að menn kynni sér í þaula hvernig danska fyrirtækið CIP (Copenhagen Infrastructure Partners) sem einnig er hluti af samsteypunni Orkugarðar Austurlands, hagar sínum vindmyllurekstri.

Orkugarðar Austurlands er eitt fyrirtækjanna að baki hugmyndum um grænan orkugarð í Reyðarfirði sem skal framleiða rafeldsneyti auk annars en til þess verkefnis þarf mikið af rafmagni. Það skal fá með vindorkugarði í landi Fljótsdalshrepps og þar hugmyndin að byggja einar 50 vindmyllur á rösklega 50 ferkílómetra svæði. Þannig fengjust um 350 megawött af orku samkvæmt útreikningum CIP.

CIP var stofnað árið 2012 af fyrrum stjórnendum danska ríkisorkufyrirtækisins, Örsted. CIP hefur sérhæft sig í fjárfestingum í endurnýjanlegum orkugjöfum, mest vindi og síðar sól en nú rafeldsneyti, eins og ætlunin er að vinna á Reyðarfirði. Fyrirtækið er í raun sjóðsstýringarfyrirtæki og helstu fjárfestar að baki því lífeyrissjóðir og stofnanafjárfestar.

Aðspurður hvers vegna Spánn verði fyrir valinu í slíkri ferð segir Helgi lykilatriðið vera að á Spáni sé einn nýjasti vindmyllugarður á vegum CIP og menn vilji kynnast því allra nýjasta í þessum geira áður en lengra verður haldið.

Hann segir CIP ekki koma á neinn hátt að þessari ferð landeigenda í Fljótsdal ef frá er talið að þeir bjóða í heimsókn í vindmyllugarðinn ytra. Hlutaðeigendur greiði sjálfir allan kostnað af ferðinni sjálfri.

Flestir vindorkugarðar í Evrópu að frátöldu Þýskalandi finnast á Spáni og hefur danska fyrirtækið CIP gert sig gildandi undanfarin ár. Mynd Flickr.com/Mussi Katz