Flóð í Lagarfljóti – Myndir
Vatnsyfirborð Lagarfljóts hefur farið lækkandi í dag eftir að hafa náð hámarki um klukkan níu í gærkvöldi. Hálfan metra vantaði upp á að það næði upp á braut Egilsstaðaflugvallar.Vatnsyfirborð Lagarfljóts hefur risið smám saman undanfarna viku vegna mikilla rigninga á Austurlandi. Hápunktinum var náð um klukkan níu í gærkvöldi og hafði það þá hækkað um tvo metra á viku, þar af um tæpan metra í gær.
Í gærkvöldi náði fljótið upp í 22,38 metra við Lagarfljótsbrúna, samkvæmt tölum frá Veðurstofu Íslands. Sunnudaginn fyrir viku var það í 20,49 metrum. Gögnin þar ná aftur til ársins 2018. Stærsti toppurinn á þeim tíma var 21,66 metrar þann 1. júní árið 2020.
Tvö stórflóð urðu í fljótinu haustið 2002. Í því síðara, í lok nóvember, náði vatn inn á enda flugbrautarinnar og svæðið milli hennar og flugstöðvarinnar. Vatnsyfirboðið fór þá upp í 22,99 metra. Rúmum mánuði fyrr hafði það farið í 22,95 metra. Farþegar og farangur voru þá fluttir með rútu inn í bygginguna.
Heldur hefur lækkað í fljótinu í dag og klukkan 17:00 var vatnsyfirborðið komið niður í 22,23 metra.
Á Héraði tók að stytta upp seinni partinn í gær en áfram hafa komið reglulega skúrir. Vatnsstaða er áfram víða há, til dæmis nær Jökulsá í Fljótsdal vel upp á tún bænda. Grímsá, sem flæddi fyrir viku, er enn vatnsmikil þótt hún sé aðeins svipur hjá sjón miðað við það sem hún var þá. Búið er að ná annarri af þeim tveimur skurðgröfum sem lentu í flóðinu við brúna yfir þjóðveginn upp á þurrt.
Núverandi veðurspár gera ráð fyrir að þurrt verði að mestu á Héraði þar til líður á miðvikudag.
Myndir: Unnar & Gunnar