
Fólk skal leita til tryggingafélaga vegna hugsanlegs foktjóns
Allir þeir sem telja sig hafa orðið fyrir einhvers konar tjóni í óveðrinu sem gengið hefur yfir Austurland síðustu dægrin þurfa að leita til tryggingafélaga sinna til að fá úr því bætt.
Töluvert hefur verið um fyrirspurnir vegna þessa frá íbúum en raunin er að engir opinberir sjóðir á borð við Náttúruhamfaratryggingar dekka foktjón af neinu tagi.
Þá skiptir einnig máli hvernig tryggingar fólk er almennt með hjá tryggingafélögunum. Ekki eru mörg ár síðan tryggingafélög höfnuðu því alfarið að bæta stórtjón sem varð aðallega á bifreiðum á Stöðvarfirði í ofsaveðri sem þar gekk yfir.
Fok- og óveðurstryggingar eru í boði hjá öllum tryggingafélögum og ennfremur brunatryggingar með fokáhættu. Slíkar tryggingar eiga að dekka tjón á húseignum ef vindhraði fer yfir 28 metra á sekúndu ef marka má upplýsingar á vefsíðum tryggingafélaganna.
Víða varð tjón á eignum eða bifreiðum í ofsaveðrinu síðustu daga en engir sjóðir hins opinbera dekka foktjón af neinu tagi. Mynd Þórður Vilberg Guðmundsson