Skip to main content

Formanni AFLs líst vel á samflot STG og LÍV

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. okt 2022 15:36Uppfært 26. okt 2022 15:38

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður AFL Starfsgreinafélags segir að sér lítist vel á fyrirhugað samflot Starfsgreinasambandsins (STG) og Landssamband íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) í komandi kjarasamningum.

„Þetta samflot mun styrkja samningsstöðu okkar og skila okkur auknum slagkrafti í komandi kjarasamningum,“ segir Hjördís Þóra og bætir því við að hún telji erfiða kjarasamninga framundan.

Á vefsíðu STG um málið segir að stærstu landssambönd launafólks á vinnumarkaði, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna og Starfsgreinsamband Íslands, hafa ákveðið að taka höndum saman í viðræðum við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning. Samstarfið nær til hátt í 90 þúsund einstaklinga sem starfa á almennum vinnumarkaði innan tuttugu stéttarfélaga.

"Mjög ríkur vilji er innan beggja sambanda að gera sameiginlega atlögu að nýjum kjarasamningi þar sem áherslan verður á að auka kaupmátt og tryggja stöðugleika í efnahagslífinu. Það er ljóst að samstarf LÍV og SGS mun skila auknum slagkrafti í kjarasamningaviðræðurnar,“ segir á vefsíðunni.

Hjördís Þóra segir að fyrsti samráðsfundur fyrrgreindra sambanda muni verða haldinn á morgun. AFL Starfsgreinafélag hefur mótað sínar áherslur í komandi kjarasamingum.

„Það sem við leggjum meðal annars áherslu á er að verja kaupmátt launafólks og auka hann með þeim ráðum sem tiltæk eru,“ segir Hjördís Þóra.