Forseti Íslands heiðrar gesti á Tæknidegi fjölskyldunnar í Neskaupstað

„Það er búið að vera í gangi nýsköpunarverkefni í samvinnu við Matís um hvernig vinna megi úr þangi og þara og sjálfur forseti Íslands ætlar að veita þeim krökkum verðlaun sem þar standa sig best,“ segir Birgir Jónsson, gæða- og verkefnisstjóri hjá Verkmenntaskóla Austurlands.

Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn með pompi og prakt að nýju eftir þriggja ára hlé í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað á laugardaginn kemur frá klukkan 12 til 16. Deginum verður fagnað bæði í húsnæði skólans sem og í íþróttahúsi bæjarins. Viðburður þessi hafði, fram að Covid, verið haldinn um sex ára skeið við góðar undirtektir og nú er þráðurinn tekinn upp að nýju.

Sem fyrr er tilgangurinn að kynna skólann sjálfan og þær námsbrautir sem hér eru í boði og fjöldi fyrirtækja á Austurlandi taka bæði þátt í deginum sjálfum og styrkja með öðrum hætti. Þar á meðal Alcoa, Síldarvinnslan, Gunnarsstofnun og VHE auk fleiri að sögn Birgis.

„Það verður mjög margt forvitnilegt í boði á laugardag og þar af ýmislegt spennandi sem gestir geta sjálfir prófað ef þeir svo kjósa. Allar deildir Verkmenntaskólans verða með sinn bás auk fleiri aðila og gestir geta sem fyrr vitnað forvitnilega hluti eða beinlínis prófað sig áfram með aðstoð fagfólks. Þar verður sérstakur íslenskubás og sálfræðibás auk þessara hefðbundnu brauta okkar eins og smíði, fatahönnun, rafvirkjunina, fablab, rafsuða málmsmíði auk hárgreiðslunnar svo fátt sé nefnt. Slökkviliðið mætir og setur á svið reykköfun ef einhver hefur áhuga á því og fyrrum skólameistari VE sýnir áhugasömum hvernig kryfja skal dýr. Allt þetta og meira til geta gestir kynnt sér í þaula á svæðinu á laugardaginn kemur. Kaffi verður að sjálfsögðu í boði og gestir geta jafnframt kynnt sér hvernig húsnæðið okkar hefur tekið breytingum undanfarin misseri.“

Til marks um hversu hróður Tæknidagsins hefur borist langt ætlar engu minni einstaklingur en sjálfur forseti Íslands,  Guðni Th. Jóhannesson, að mæta og heiðra gesti.

„Um sex vikna skeið höfum við auk grunnskólanna í Fjarðabyggð og í samvinnu við Matís verið með nýsköpunarverkefni í gangi þar sem krakkarnir vinna með kennurum sínum að verkefnum er varða nýsköpun með þang og þara. Við vonum að einhver þeirra verkefna verði til sýnis á laugardaginn kemur þó það sé ekki alveg komið á hreint en á Tæknideginum ætlum við að veita verðlaun vegna þessa verkefnis og það er enginn annar en forseti Íslands sem ætlar að veita þau verðlaun.“

Það ávallt leikur að læra og unga fólkið sem er óvisst um hvaða leið það skuli fara í framtíðinni gæti haft gagn og gaman af að kynna sér tækni, vísindi og nám við Verkmenntaskóla Austurlands á laugardaginn kemur. Mynd VA

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.