Forstjóri Icelandair fundar með Austfirðingum í lok vikunnar

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hefur þekkst boð um að funda með austfirsku sveitarstjórnarfólki á föstudag um stöðuna í innanlandsflugi. Miklar raskanir hafa verið á því síðustu daga.

„Það hefur margt samband fólk verið í sambandi við mig því þetta hefur áhrif á skipulag þess og daglegt líf. Verst þykir því að geta ekki treyst á flugið þegar á þarf að halda. Við erum vön að reikna með veðrinu en ráðum ekki við aðrar breytur,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Bogi Nils fundar með sveitarfélögum á Norðurlandi eystra í dag. Jóna Árný segir Austfirðinga hafa verið í góðum samskiptum við Norðlendinga og Vestfirðinga síðustu mánuði vegna stöðunnar í fluginu.

Eftir mikla erfiðleika í vor komu stjórnendur frá Icelandair austur og funduðu með sveitarstjórn Múlaþings sem og fulltrúum frá Austurbrú. Þá var ákveðið að taka stöðuna aftur með haustinu og vonað að erfiðleikar vorsins væru úr sögunni.

Mikil áhrif á íþróttaliðin

Eftir þokkalegt sumar hefur hallað undan fæti síðustu vikur. Kornið sem fyllti mælirinn var þegar morgunfluginu á laugardag var aflýst vegna bilunar í flugvél. Meðal þeirra sem áttu bókað suður með þeirri vél voru leikmenn Knattspyrnufélags Austfjarða (KFA) á leið í síðasta leik sumarsins gegn Reyni í Sandgerði.

Magnús Björn Ásgrímsson, formaður KFA, segir að klukkan 6:45 um morguninn hafi borist tölvupóstur á hans netfang um rúmlega klukkustundar seinkunn á fluginu. Þeir hafi orðið 55 yfir daginn en engin önnur frekari samskipti. Því miður féll tölvupósturinn um morguninn milli skips og bryggju.

Þess vegna mætti liðið á tilskyldum tíma í flug að nánast mannlausri flugstöð. Kortéri síðar barst annar tölvupóstur um að flugið hefði alveg verið fellt niður. Þjálfari liðsins hafði þá þegar komist á snoðir um stöðuna og byrjað að útvega bílaleigubíla, sem meðal annars fengust frá Norðfirði.

Leikurinn var færður til Keflavíkur og settur á klukkan 20:00 því takmörkuð lýsing er á vellinum í Sandgerði. Gallinn við völlinn í Keflavík var hins vegar að samkvæmt reglum þar skal slökkt á lýsingunni stundvíslega klukkan 22:00 og fékkst því ekki hnikað. Leikmenn KFA keyrðu því eins hratt og þeir máttu suður. Leikurinn var flautaður á klukkan 20:15 og hálfleikurinn styttur niður í fimm mínútum þannig takast mætti að ljúka leik í tíma. Magnús segir að aðrir leiktímar síðar, svo sem daginn eftir, hafi hentað illa vegna skuldbindinga leikmanna. Reynir vann leikinn 2-0 sem hafði ekki áhrif á stöðuna í deildinn.

Íþróttafélögin á Austurlandi eru umfangsmikil í viðskiptum við innanlandsflugið eins og sú staðreynd að kvennalið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis átti bókað austur á laugardagsmorgninum. Komu þeirra í áætlað lokahóf Hattar um kvöldið seinkaði en kvöldfluginu var reddað með þotu. Hjá Icelandair fengust í morgun þær upplýsingar að viðhald og óvænt tæknileg atvik hefðu valdið flugvélaskorti og þar með röskunum á flugi síðustu daga.

Minni sveigjanleiki eftir sameiningu

Magnús, sem árum saman hefur verið framarlega í knattspyrnuhreyfingunni á Austurlandi, segir að félögin reki sig á meiri stífni eftir að innanlandsflugið var sameinað undir merkjum Icelandair.

„Við bókum öll flug sumarsins fyrirfram en þurfum að senda nafnalista og fullnaðargreiðslu með níu daga fyrirvara. Eftir það geta komið upp meiðsli og leikbönn þannig við þurfum að breyta flugi. Nú kostar hver nafnabreyting nýja bókun sem verður til þess að yfirsýnin á ferðina verður mun erfiðari.

Breytingar sem verða eftir lokun þjónustuborðs þarf að tilkynna með tölvupósti á ákveðið netfang. Í fyrra sendum við tvær slíkar breytingar fyrir eitt flugið en bara önnur þeirra náði í gegn. Það þýddi að við þurftum að skilja eftir einn leikmann á flugvellinum. Þetta er mjög vont ástand.“

Samkvæmt samantekt Túrista var stundvísi Icelandair til og frá Egilsstöðum fyrri hluta septmeber 72%. Þótt það hlutfall teljist vart ásættanlegt var það hærra en til Ísafjarðar (69%) og Akureyrar (61%).

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.