Fótbolti: Einherji einu marki frá sjötta sætinu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. sep 2022 10:13 • Uppfært 25. maí 2023 14:52
Eitt mark skildi að Álftanes og Einherja á toppi neðri hluta annarrar deildar kvenna í knattspyrnu. Einherji kláraði síðasta leik sinn gegn ÍH 4-1 á laugardag.
Tólf lið tóku þátt í deildinni og léku einfalda umferð. Að því loknu var þeim skipt í tvennt þar sem sex efstu annars vegar og fimm neðstu hins vegar léku innbyrðis, en neðsta lið deildarinnar hætti keppni.
Einherja gekk vel í umspilinu, vann fjóra leiki og gerði eitt jafntefli. Þá varð hin rúmenska Coni Ion markahæst í seinni hlutanum með fimm mörk.
Einherji vann um síðustu helgi ÍH 4-1 á Vopnafirði. Viktória Szeles skoraði fyrsta markið eftir um hálftíma leik og Sara Líf Magnúsdóttir bætti öðru við rétt áður en flautað var til hálfleiks. Coni skoraði þriðja markið á 56. mínútu og Amanda Lind Elmarsdóttir það fjórða þremur mínútum síðar. ÍH kom austur með einn varamann, Diljá Ósk Snjólfsdóttur sem alin er upp í Neista Djúpvogi.
Góður árangur Einherja í seinni hlutanum varð til þess að liðið vann sig upp um sæti, fór upp fyrir Sindra frá Hornafirði. Álftanes hélt hins vegar efsta sætinu, því sjötta í heildarkeppninni. Einherji jafnaði sunnanliðið að stigum, hvort fékk 22 stig en Einherji var með -3 mörk í markahlutfall en Álftanes með -2.
Einherji hefði þó þurft að skora tvö mörk í viðbót til að stela sætinu því Álftanes skoraði um tíu mörkum meira yfir sumarið.
Mynd: Jón Ragnar Helgason