Framtíðarsalerni sett upp við áningarstaði eftir tilraunaverkefni
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. ágú 2022 17:16 • Uppfært 25. ágú 2022 09:09
Samið hefur verið við tvö sveitarfélög um að setja upp varanleg salerni á bílastæðum Vegagerðarinnar eftir tilraunaverkefni. Ljóst þykir að bæta þurfi úr á fleiri stöðum.
Árið 2016 var unnin skýrsla á vegum Vegagerðarinnar um salernisaðstöðu við Hringveginn og reynt að benda sérstaklega á staði þar sem langt væri á milli, til dæmis milli Egilsstaða og Mývatns. Komið var upp salernum á 15 stöðum til tilraunar til þriggja ára.
Í fyrra voru síðan settar 100 milljónir til að koma upp varanlegum salernum við áningarstaði. Í kjölvarið var samið um tvö salerni, annars vegar í Reykhólahreppi milli Kerlingarfjarðar og Vattarfjarðar og hins vegar í Vopnafjarðarhreppi, við vegamót Hringvegarins og afleggjarans til Vopnafjarðar.
Þess vegna hafa ekki verið salerni í sumar á nokkrum þeirra staða sem þau voru áður. Þannig var salerni á vegum Vegagerðarinnar áður við Fossá í Berufirði. Viðmælendur Austurfréttar segja þess vera saknað því umgangur þar í sumar hafi ekki verið aðlaðandi.
Í skýrslunni frá 2016 segir að ljóst hafi verið að ráðast þyrfti í verkefnið. Umgengni við sum bílastæðin, með fjúkandi salernispappír, hafi ergt landeigendur mjög.
Í þjónustukönnun sem gerð var fyrir Vegagerðina 2020 segir að ánægja sé með þau salerni sem komið hafi verið upp, til dæmis Þvottá. Viðmælendur þar hvetja til þess að þeim verði frekar fjölgað og benda á staði eins og Grábrók í Borgarfirði og Ytra-Rjúkanda á Jökuldal.
Við gatnamót vegarins yfir Vopnafjarðarheiði og Hringvegar.